Hugsanleg brot á upplýsingaskyldu líklega fyrnd

Almennt

04.10.2012

Hugsanleg brot frambjóðenda sem tóku þátt í prófkjöri vegna sveitarstjórnarkosninganna 2010 á lögbundinni upplýsingaskyldu eru að öllum líkindum fyrnd. Þetta má lesa út úr bréfi ríkissaksóknara til ríkisendurskoðanda.Að gefnu tilefni átti ríkisendurskoðandi nýlega fund með ríkissaksóknara og lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins um túlkun refsiákvæða laga nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Umrædd refsiákvæði er að finna í 12. gr. laganna. Þar segir m.a. að hver sá sem ekki skilar upplýsingum eða skýrslum samkvæmt ákvæðum laganna til Ríkisendurskoðunar innan tilgreindra tímamarka skuli sæta sektum. Þá segir að hið sama gildi séu veittar upplýsingar ekki í samræmi við settar reglur. Samkvæmt 11. gr. laganna hafa frambjóðendur í persónukjöri 3 mánaða frest til að skila árituðu uppgjöri til Ríkisendurskoðunar. Fresturinn var 6 mánuðir samkvæmt eldri lögum sem giltu til 1. október 2010. Þeir frambjóðendur sem hafa minni kostnað af kosningabaráttu en 400 þús.kr. þurfa þó ekki að skila uppgjöri.

Í framhaldi af umræddum fundi hefur ríkissaksóknari sent ríkisendurskoðanda bréf þar sem hann gerir grein fyrir afstöðu sinni í þessu efni og leiðbeinir stofnuninni um viðbrögð við meintum brotum sem sætt geta lögreglurannsókn. Samkvæmt bréfinu byrjar frestur frambjóðanda til að skila uppgjöri til Ríkisendurskoðunar að líða þegar kosning í viðkomandi prófkjöri hefur farið fram. Þá telur ríkissaksóknari að brot á upplýsingaskyldu frambjóðenda fyrnist á tveimur árum. Þetta þýðir t.d. að hafi prófkjöri vegna sveitarstjórnarkosninganna 2010 verið lokið fyrir 4. apríl 2010 eru hugsanleg brot frambjóðenda á lögbundinni upplýsingaskyldu fyrnd.

Þá kemur fram í bréfinu að fari kostnaður frambjóðanda í prófkjöri ekki fram úr 400 þús.kr. varðar það viðkomandi ekki refsingu að skila ekki tilkynningu/yfirlýsingu þar að lútandi til Ríkisendurskoðunar.

Lesa má bréf ríkissaksóknara með því að smella á hlekkinn hér að neðan.

Sjá nánar