Yfirlýsing frá Ríkisendurskoðun

Almennt

24.09.2012

Vegna umfjöllunar sjónvarpsþáttarins Kastljóss fyrr í kvöld um óbirt vinnuplagg Ríkisendurskoðunar sem varðar kaup á fjárhagsupplýsingakerfi fyrir ríkið, vill stofnunin koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.Umrætt vinnuplagg er trúnaðargagn sem komið hefur verið með ólögmætum hætti til Kastljóss. Plaggið hefur ekki verið sent formlega til hlutaðeigandi aðila til andmæla. Villur, rangfærslur og misskilningur sem plaggið kann að innihalda hafa því ekki verið leiðrétt.

Þeir aðilar sem athuganir Ríkisendurskoðunar beinast að hafa rétt til að andmæla frumniðurstöðum stofnunarinnar. Stofnunin fer ávallt vandlega yfir slík andmæli áður en gengið er frá endanlegri skýrslu og tekur afstöðu til þess að hvaða marki tekið verði tillit til þeirra. Með umfjöllun Kastljóss hafa hlutaðeigandi aðilar í reynd verið sviptir þessum andmælarétti. Iðulega breytast drög að skýrslum sem Ríkisendurskoðun hefur í smíðum í kjölfar andmæla. Jafnvel eru dæmi um að slík vinnuplögg taki stakkaskiptum á lokastigum vinnslu. Það er því beinlínis rangt að leggja umrætt plagg að jöfnu við fullgerða skýrslu.

Í ljósi framangreinds telur Ríkisendurskoðun óábyrgt af Kastljósi að vitna eða vísa með öðrum hætti til þessa vinnuplaggs, líkt og um endanlega skýrslu sé að ræða. Þess má raunar geta að tölur þær sem nefndar voru í umfjöllun Kastljóssins er að finna í fjárlögum og ríkisreikningi og hafa því lengi verið opinberar upplýsingar.

Ríkisendurskoðun viðurkennir að vinna við verkefnið hefur dregist á langinn. Þegar umrætt vinnuplagg lá fyrir í árslok 2009 var ákveðið að skoða betur nokkra þætti og uppfæra upplýsingar sem orðnar voru úreltar. Þessi vinna hefur farið fram á undanförnum misserum með hléum. Áætlað er að henni ljúki áður en langt um líður og að niðurstöður verði birtar í opinberri skýrslu. Fráleitt er að halda því fram að Ríkisendurskoðun hafi reynt að halda mikilvægum upplýsingum frá Alþingi, enda sendir stofnunin árlega um 30 rit til þingsins þar sem iðulega er fjallað með gagnrýnum hætti um margvíslega þætti ríkisrekstrarins.

Ríkisendurskoðun harmar að umrætt ófullgert vinnuplagg stofnunarinnar hafi ratað í fjölmiðla enda er það, af fyrrgreindum ástæðum, afar óheppilegt og getur ekki stuðlað að upplýstri umræðu. Þvert á móti kann það að skaða þá hagsmuni sem í húfi eru. Þá getur boðuð umfjöllun Kastljóssins um öryggismál fjárhagsupplýsingakerfis ríkisins stefnt mikilvægum almannahagsmunum í voða og haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér.