Athugasemd vegna fjölmiðlaumræðu

Stjórnmálastarfsemi

03.09.2012

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um eftirlit Ríkisendurskoðunar með fjárreiðum stjórnmálasamtaka vill stofnunin koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Ríkisendurskoðun er sjálfstæð stofnun sem starfar á vegum Alþingis og sinnir samkvæmt lögum nr. 86/1987 endurskoðun ríkisreiknings og aðila sem annast fjárvörslu eða rekstur á vegum ríkisins. Þá hefur stofnunin eftirlit með og stuðlar að umbótum á fjármálastjórn ríkisins og nýtingu almannafjár.

Stofnuninni eru einnig falin verkefni í öðrum lögum, meðal annars lögum nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Samkvæmt lögunum ber Ríkisendurskoðun að taka við reikningum stjórnmálasamtaka, árituðum af löggiltum endurskoðendum, og birta í kjölfarið útdrátt úr þeim. Þessu verkefni leitast stofnunin við að sinna af metnaði og heilindum. Ávallt er farið vandlega yfir reikninga stjórnmálasamtaka sem stofnuninni berast og athugað, eftir því sem tök eru á, hvort þeir séu í samræmi við ákvæði laganna. Einnig leitast Ríkisendurskoðun við að upplýsa forsvarsmenn stjórnmálasamtaka um skyldur þeirra samkvæmt lögunum. Í ljósi upplýsinga sem nýlega hafa komið fram í fjölmiðlum mun stofnunin fara yfir verklag sitt hvað þetta eftirlit og upplýsingagjöf varðar og kanna leiðir til að bæta þessa þætti.

Ríkisendurskoðun áréttar að þótt stofnunin hafi vissulega eftirlitshlutverki að gegna hvað varðar fjárreiður stjórnmálasamtaka, þá bera forráðamenn slíkra samtaka ábyrgð á því að fjárreiður þeirra og upplýsingagjöf séu í samræmi við lög nr. 162/2006. Einnig má benda á hlutverk löggiltra endurskoðenda í þessu sambandi en þeim ber að sannreyna að reikningar stjórnmálasamtaka samrýmist fyrrgreindum lögum sem og almennum reikningsskilareglum.

Loks minnir stofnunin á að tilgangurinn með því að birta opinberlega útdrátt úr reikningum stjórnmálasamtaka er meðal annars að auðvelda fjölmiðlum og almenningi að veita slíkum samtökum aðhald og stuðla þannig að því að ákvæði laganna séu virt.