Skýrsla um starfsemi Ríkisendurskoðunar árið 2011

Almennt

04.05.2012

Út er komin ársskýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2011 þar sem gerð er grein fyrir starfsemi stofnunarinnar og helstu niðurstöðum endurskoðunar og athugana hennar á síðasta ári.

Samkvæmt 12. grein laga um Ríkisendurskoðun skal á hverju ári semja heildarskýrslu um störf stofnunarinnar á liðnu almanaksári og leggja hana fyrir Alþingi. Í formála sínum að Ársskýrslu Ríkisendurskoðunar 2011 segir Sveinn Arason ríkisendurskoðandi m.a. orðrétt:

Á liðnum árum hefur Ríkisendurskoðun ítrekað lagt til að lög um fjárreiður ríkisins verði endurskoðuð. Í kjölfar skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) frá síðasta hausti ákvað fjármálaráðherra að hefja formlega endurskoðun laganna. Í því skyni skipaði hann sérstaka 12 manna stýrinefnd til að skipuleggja og halda utan um vinnuna en undirritaður á m.a. sæti í henni. Undir þessari stýrinefnd starfa fjórir vinnuhópar sem hver um sig hefur afmarkaðan hluta laganna til skoðunar. Ríkisendurskoðun á fulltrúa í þremur þeirra. Stefnt er að því að þessi vinna skili sér í frumvarpi sem lagt verði fram á Alþingi næsta haust. Ég vil nýta þetta tækifæri til að lýsa ánægju minni með þessa vinnu og samstarfið innan fyrrnefndra hópa.

Ríkisendurskoðandi ræðir einnig um skil stjórnmálaflokka og frambjóðenda á fjárhagsupplýsingum til stofnunarinnar og segir orðrétt:

Meðal lögbundinna verkefna Ríkisendurskoðunar er eftirlit með fjármálum stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Þessum aðilum ber samkvæmt lögum skylda til að skila fjárhagsupplýsingum til stofnunarinnar innan settra tímafresta. Frestur stjórnmálasamtaka til að skila ársreikningum sínum er lögbundinn og miðast við 1. október ár hvert en Ríkisendurskoðun setur tímafresti þegar um er að ræða upplýsingar um kostnað frambjóðenda af kosningabaráttu. Ítrekað kemur fyrir að flokkar og frambjóðendur skila ekki upplýsingum til stofnunarinnar innan settra tímafresta. T.d. höfðu fjórir flokkar ekki skilað reikningum sínum vegna ársins 2010 fyrir 1. október 2011 (sjá bls. 33). Ég tel ámælisvert að flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi skuli ekki virða þau tímamörk sem þingið hefur sjálft sett þeim með lögum.

Auk formála ríkisendurskoðanda er í skýrslunni að finna yfirlit um viðfangsefni og afrakstur stofnunarinnar árið 2011, rekstur og mannauð. Þá er birtur útdráttur úr nokkrum opinberum ritum sem stofnunin gaf út á árinu en þau voru samtals 32. Enn fremur eru í skýrslunni greinar eftir starfsmenn stofnunarinnar um fyrirhugaðar breytingar á lögum um fjárreiður ríkisins og um ímynd Ríkisendurskoðunar í hugum almennings. Loks er ársreikningur stofnunarinnar birtur í skýrslunni.

Sjá nánar ársskýrslur Ríkisendurskoðunar