Misbrestur á því að stofnanir skili rekstraráætlunum innan tímamarka

Skýrsla til Alþingis

15.02.2012

Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að ríkisstofnanir virði tímafrest sem gildir um skil á rekstraráætlunum til ráðuneyta. Tryggja þurfi að allar áætlanir séu skráðar inn í bókhaldskerfi ríkisins um leið og þær hafa hlotið samþykki. Þá sé brýnt að ráðuneytin samþykki ekki rekstraráætlanir sem ekki rúmast innan fjárheimilda.Samkvæmt reglum eiga ríkisstofnanir að skila ráðuneytum sínum rekstraráætlunum fyrir lok desember ár hvert. Þær skulu rúmast innan heimilda fjárlaga. Ráðuneytin eiga að samþykkja áætlanir með eða án breytinga fyrir miðjan janúar.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að misbrestur sé á því að rekstraráætlunum sé skilað til ráðuneyta innan tímamarka. Einnig sé afgreiðslu ráðuneytanna á þeim ábótavant. Eitt ráðuneyti, umhverfisráðuneytið, veitti Ríkisendurskoðun ekki umbeðnar upplýsingar þrátt fyrir ríflegan tímafrest og gagnrýnir stofnunin það. Ekki liggja því fyrir upplýsingar um skil og afgreiðslu rekstraráætlana innan þess ráðuneytis.

Hvað varðar önnur ráðuneyti hafði aðeins 152 áætlunum af samtals 192 verið skilað fyrir lok desember 2011. Um miðjan janúar sl. höfðu þessi ráðuneyti aðeins samþykkt þriðjung áætlana. Átta áætlanir voru samþykktar þótt þær hafi ekki rúmast innan fjárheimilda. Þá voru áætlanir ekki ávallt skráðar í bókhaldskerfi ríkisins um leið og þær höfðu verið samþykktar, eins og ber að gera. Enn á eftir að samþykkja áætlanir 60 stofnana.

Ríkisendurskoðun telur að gera eigi rekstraráætlanir fyrir alla fjárlagaliði nema þegar um er að ræða tilfærslur eða greiðslur til aðila utan ríkisins. Í slíkum tilvikum verði greiðsluáætlun látin duga. Að mati stofnunarinnar er mikilvægt að tímafrestir sem gilda um skil og samþykkt rekstraráætlana séu virtir. Þá bendir stofnunin á að ráðuneytin þurfi að tryggja að allar áætlanir séu skráðar inn í bókhaldskerfi ríkisins um leið og þær hafa hlotið samþykki. Loks minnir stofnunin á að ráðuneytin eiga ekki að samþykkja rekstraráætlanir sem ekki rúmast innan fjárheimilda.

Sjá nánar

Uppfært 16.02.2012:
Ríkisendurskoðun hafa í dag borist upplýsingar frá umhverfisráðuneytinu um skil rekstraráætlana og afgreiðslu þeirra. Skila átti áætlunum fyrir samtals 15 fjárlagaliði hjá ráðuneytinu. Þar af hafði 11 áætlunum verið skilað fyrir lok desember 2011. Engin áætlun hafði verið samþykkt fyrir miðjan janúar 2012.