Úttekt á embætti Ríkislögreglustjóra

Skýrsla til Alþingis

09.03.2020

Ríkisendurskoðun hefur lokið úttekt á Ríkislögreglustjóra. Ríkisendurskoðun ákvað að hrinda slíkri úttekt af stað í kjölfar þess að embætti ríkislögreglustjóra óskaði eftir athugun Ríkisendurskoðunar á rekstri bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra.  Leitað var eftir afstöðu dómsmálaráðuneytis og í kjölfarið ákvað ríkisendurskoðandi að gera skyldi stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra í heild sinni.

Í skýrslunni bendir ríkisendurskoðandi m.a. á að óeining um valdmörk og yfirstjórnunarhlutverk ríkislögreglustjóra hafi á undanförnum árum leitt til þess að lögreglustjórar hafa í auknum mæli leitað beint til dómsmálaráðuneytis vegna ýmissa mála í stað ríkislögreglustjóra. Að verulegu leyti megi rekja þessa óeiningu til skorts á samstarfi, samráði og upplýsinga­flæði innan lögreglunnar. Þá bendir ríkisendurskoðandi á að endurskoða þurfi  lögreglulög og skýra hlutverk ríkislögreglustjóra og stöðu embættisins í skipulagi löggæslu hér á landi en hvetur til þess að hugað verði að því að á Íslandi verði ein lögregla með öflugri nærþjónustu um allt land.

Þá kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að í gegnum árin hafi embætti ríkislögreglustjóra verið falin ýmis ábyrgðarhlutverk innan löggæslunnar, s.s. rekstur sérsveitar, almannavarnadeildar, alþjóðadeildar, landamæradeildar, greiningardeildar, stoðdeildar og fleiri einingum. Um er að ræða verkefni sem mikilvægt er að sé sinnt á landsvísu. Almennt hafi ríkt góð sátt um þessi verkefni ríkislögreglustjóra og eru þau m.a. til marks um þá eflingu og framþróun löggæslunnar sem átt hefur sér stað frá því embætti ríkislögreglustjóra var komið á fót, jafnt vegna innri sem ytri áhrifavalda. Faglegt löggæslustarf innan embættis ríkislögreglustjóra hefur þannig verið öflugt þrátt fyrir togstreitu um yfirstjórn lögreglu á síðustu árum.

Þjónustuhlutverk ríkislögreglustjóra hefur sætt gagnrýni innan lögreglunnar, sérstaklega sameiginleg þjónusta ríkislögreglustjóra í tengslum við rekstur bílamiðstöðvar og kaup á búnaði og fatnaði lögreglumanna. Athugun Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós að það hafi tekið embætti ríkislögreglustjóra rúm fjögur ár að koma útboðsmálum vegna fatnaðar lögreglu í við­unandi horf. Draga þarf lærdóm af rekstri bílamiðstöðvar Ríkislögreglustjóra og koma á fót ásættanlegu kerfi í tengslum við ökutæki lögreglu. Gera þarf raunhæfar áætlanir um hvernig ná megi því markmiði að lögreglan hafi yfir að búa öflugum ökutækjakosti og að endurnýjun hans sé með reglubundnum hætti.

Ríkisendurskoðun telur að nálgast þurfi uppbyggingu og skipulag löggæslu með það fyrir augum að lögreglan á Íslandi starfi í framtíðinni sem ein lögregla, eitt lið undir sameiginlegri stjórn, óháð fjölda umdæma eða fyrirkomulagi einstakra verkefna innan skipulagsins, hvort sem þau eru unnin á landsvísu eða í nær­um­hverfinu. Slíkt væri í takt við þá löggæsluþróun sem átt hefur sér stað meðal þeirra ríkja sem Ísland ber sig helst saman við. Jafnframt mætti með slíku skipulagi stórbæta nýtingu þeirra fjármuna sem ætlað er til löggæslu í landinu á sama tíma og framkölluð væru veruleg áhrif til faglegrar samlegðar, hagkvæmni og skilvirkni.

Sjá nánar

Mynd með frétt