Sjötta skýrslan um samningamál einstakra ráðuneyta

Skýrsla til Alþingis

08.02.2012

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gert fjölmarga samninga við aðila utan ríkisins um að þeir taki að sér verkefni gegn greiðslum úr ríkissjóði. Ríkisendurskoðun telur að bæta þurfi eftirlit með framkvæmd þessara samninga sem og ýmislegt annað sem tengist umsýslu þeirra. Ráðuneytið vinnur að endurbótum á samningamálum sínum. Á undanförnum árum hafa einstök ráðuneyti gert samninga við samtök, einkaaðila og sveitarfélög um að þessir aðilar taki að sér verkefni gegn greiðslum úr ríkissjóði. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um 71 slíkan samning mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Áætlað er að kostnaður við þessa samninga hafi numið um 10,6 milljörðum króna á síðasta ári. Þar af var rúmlega helmingur vegna samninga við Ríkisútvarpið ohf., Háskólann í Reykjavík ehf. og Menntafélagið ehf. (Tækniskólann).

Í skýrslunni kemur fram að eftirlit ráðuneytisins með framkvæmd samninganna sé ekki að öllu leyti í samræmi við ákvæði þeirra, t.d. hafi formlegar úttektir ekki verið gerðar. Þá hafi heimildir til endurskoðunar samninga sjaldan verið nýttar og frestur til endurnýjunar ekki virtur í öllum tilvikum. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að bæta úr þessum annmörkum og að samræma eftirlit sitt með skuldbindandi samningum.

Bent er á að ekki séu gildir samningar um öll verkefni sem mennta- og menningarmálaráðuneytið greiðir fyrir. Á árinu 2011 var þannig áætlað að greiða samtals 4,6 milljarða króna samkvæmt 35 útrunnum og tveimur ógildum samningum. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að endurnýja útrunna samninga hið fyrsta og tryggja að greiðslur byggi ávallt á gildum samningum. Þá þarf ráðuneytið að skjalfesta verklagsreglur um gerð og umsýslu skuldbindandi samninga og bæta yfirsýn um þá.

Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að tengja greiðslur samninga við árangur, frammistöðu eða framvindu verkefna. Einnig telur stofnunin að móta þurfi reglur um úttekir á framkvæmd samninga og endurskoðun þeirra á samningstíma og fylgja þeim eftir.

Í skýrslunni kemur fram að ráðuneytið vinni að endurbótum á samningamálum sínum og fagnar Ríkisendurskoðun því.

Ríkisendurskoðun ákvað fyrr á þessu ári að kanna framkvæmd, eftirlit og eftirfylgni ráðuneyta með samningum sem þau hafa gert við aðila utan ríkisins og skilgreindir eru sem „skuldbindandi samningar“ í fjárlögum. Birt verður sérstök skýrsla fyrir hvert ráðuneyti og er skýrslan um skuldbindandi samninga mennta- og menningarmálaráðuneytisins sú sjötta í röðinni.

Sjá nánar