Innanríkisráðuneytið hefur nokkuð góða yfirsýn um skuldbindandi samninga

Skýrsla til Alþingis

09.01.2012

Innanríkisráðuneytið og undirstofnanir þess hafa gert allmarga saminga við aðila utan ríkisins um að þeir taki að sér verkefni gegn greiðslum úr ríkissjóði. Ríkisendurskoðun telur að ráðuneytið hafi nokkuð góða yfirsýn um þessa samninga en að efla þurfi eftirlit með framkvæmd þeirra.Á undanförnum árum hafa einstök ráðuneyti gert samninga við samtök, einkaaðila og sveitarfélög um að þessir aðilar taki að sér verkefni gegn greiðslum úr ríkissjóði. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um 31 slíkan samning innanríkisráðuneytisins. Bæði er um að ræða samninga sem ráðuneytið hefur sjálft gert sem og tvær undirstofnanir þess: Vegagerðin og Siglingastofnun. Áætlað er að kostnaður við þessa samninga hafi numið um 6,1 milljarði króna á síðasta ári.

Að mati Ríkisendurskoðunar hefur innanríkisráðuneytið nokkuð góða yfirsýn um þessa samninga. Hins vegar telur stofnunin að ráðuneytið þurfi að efla eftirlit sitt með framkvæmd þeirra í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og samninga. Einnig þurfi að samræma ákvæði samninganna um eftirlit. Þá sé mikilvægt að ráðuneytið fylgist með því að stofnanir þess starfi í samræmi við ákvæði samninga sem þær hafa gert.
Ríkisendurskoðun telur að setja eigi reglur um úttektir sem ákvarðanir um mögulegt framhald samstarfs verði m.a. byggðar á. Enn fremur þurfi að samræma notkun markmiða og mælikvarða í umræddum samningum og tengja greiðslur við slík markmið, frammistöðu eða framvindu verkefna.

Ríkisendurskoðun ákvað á síðasta ári að kanna framkvæmd, eftirlit og eftirfylgni ráðuneyta með samningum sem þau hafa gert við aðila utan ríkisins og skilgreindir eru sem „skuldbindandi samningar“ í fjárlögum. Birt verður sérstök skýrsla fyrir hvert ráðuneyti og er skýrslan um skuldbindandi samninga innanríkisráðuneytisins sú þriðja í röðinni en áður eru komnar út skýrslur um samninga iðnaðarráðuneytisins og velferðarráðuneytisins.

Sjá nánar