Áætlun um stjórnsýsluúttektir næsta árs

Almennt

21.12.2011

Ríkisendurskoðun mun í stjórnsýsluúttektum sínum á næsta ári m.a. leggja áherslu á að þjóna Alþingi og skattborgurum með þörfum, tímanlegum, óhlutdrægum og áreiðanlegum upplýsingum um ríkisreksturinn. Stofnunin hefur birt áætlun um stjórnsýsluendurskoðun fyrir árið 2012. Stjórnsýsluendurskoðun felst í því að kanna meðferð og nýtingu almannafjár. Hún er í raun ein tegund frammistöðumats, þ.e. felst í almennri greiningu á því hvernig stofnunum og öðrum rekstraraðilum gengur að sinna lögbundnum verkefnum. Markmiðið er að stuðla að umbótum í opinberum rekstri og þar með skynsamlegri og markvissri nýtingu á almannafé.
Í áætluninni er varpað ljósi á eðli og inntak stjórnsýsluúttekta, hvernig að þeim er staðið og greint frá áherslum í starfseminni á næsta ári. Þá eru listuð upp verkefni í vinnslu í ársbyrjun 2012 og gróflega gerð grein fyrir fyrirhuguðum verkefnum á árinu.

Á því sviði Ríkisendurskoðunar sem annast stjórnsýsluúttektir (stjórnsýslusviði) starfa nú 11 manns. Sviðið hefur birt samtals 28 úttektir á árinu 2011. Sviðsstjóri er Kristín Kalmansdóttir.