Nefnd til að endurskoða lög um Ríkisendurskoðun

Almennt

01.12.2011

Forsætisnefnd Alþingis hefur skipað þriggja manna nefnd til að fara yfir og endurskoða lög um Ríkisendurskoðun. Tilefnið er m.a. skýrsla vinnuhóps sem falið var að fjalla um eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu.

Nefndin hefur þegar hafið störf en hana skipa Þuríður Backman, alþingismaður og 2. varaforseti Alþingis, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, Sveinn Arason ríkisendurskoðandi og Stefán Svavarsson, lektor og löggiltur endurskoðandi. Ritari nefndarinnar er Þórhallur Vilhjálmsson, aðallögfræðingur Alþingis.
Tilefnið er m.a. skýrsla vinnuhóps sem forsætisnefnd Alþingis skipaði árið 2007 til að fjalla um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu og niðurstöður þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008. Þess má geta að forsætisnefnd hefur einnig skipað þriggja manna nefnd til að endurskoða lög um umboðsmann Alþingis.

Lög um Ríkisendurskoðun voru síðast endurskoðuð árið 1996 en fyrstu sérlög um stofnunina tóku gildi árið 1987. Með þeim var stofnunin færð undir Alþingi en hún hafði áður verið sérstök stjórnardeild undir fjármálaráðherra.

Þeir sem óska eftir því að koma á framfæri athugasemdum eða ábendingum til nefndarinnar geta komið þeim til ritara hennar á tölvupóstfangið: thorhallurv@althingi.is eða á póstfangið:

Alþingi,
b.t. Þórhalls Vilhjálmssonar, ritara nefndar
um endurskoðun laga um Ríkisendurskoðun,
Alþingishúsinu við Austurvöll (Skála),
150 Reykjavík.