Leysa þarf fjárhagsvanda Hólaskóla og ákveða framtíð hans

Skýrsla til Alþingis

29.11.2011

Uppsafnaður rekstrarhalli og aðrar skuldir Hólaskóla námu meira en 200 m.kr. í lok síðasta árs. Að mati Ríkisendurskoðunar er brýnt að leysa þennan vanda. Einnig þurfa yfirvöld menntamála að ákveða framtíð skólans en í því efni telur Ríkisendurskoðun þrennt koma til greina. Hólaskóli – Háskólinn á Hólum er minnstur þeirra sjö háskóla sem starfa hér á landi. Hann býður háskólanám í hestafræðum, ferðamálafræðum og fiskeldis- og fiskalíffræði. Veturinn 2010–11 stunduðu samtals 247 nemendur nám við skólann, þar af 156 í fjarnámi. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að á undanförnum árum hafi skólinn glímt við rekstrarvanda og ítrekað farið fram úr fjárheimildum. Þó hefur frá árinu 2009 tekist að halda rekstri skólans nokkurn veginn innan fjárheimildar hver árs. Uppsafnaður rekstrarhalli nam 76 milljónum króna í árslok 2010 og heildarskuldir 207 milljónum króna. Að mati Ríkisendurskoðunar er brýnt að skólinn og mennta- og menningarmálaráðuneytið finni varanlega lausn á þessum vanda.

Ríkisendurskoðun telur óvíst að Hólaskóli sé hagkvæm rekstrareining. Fjárveitingar til skólans hafa hingað til ekki verið í samræmi við almennar reglur um fjárveitingar til háskóla. Samkvæmt þeim miðast fjárveitingar einkum við fjölda svokallaðra ársnemenda, þ.e. ígildi nemenda sem stunda fullt nám í eitt ár. Til að hafa fjárhagslega burði til að uppfylla faglegar kröfur sem gerðar eru til háskóla og falla að fyrrnefndum reglum þarf skóli að hafa tiltekinn lágmarksfjölda ársnemenda í hverri deild. Hing­að til hafa ársnemendur Hóla­skóla verið of fáir til að skólinn geti fallið að reglunum. Á hinn bóginn hamla heildartekjur hans og að­staða, eink­um til bóklegs náms, því að hann geti tekið við mikið fleiri árs­nem­endum en nú er gert.

Ríkisendurskoðun hvetur mennta- og menningarmálaráðuneytið til að ákveða framtíð Hólaskóla. Í því efni eru að mati stofnunarinnar þrír kostir: skólinn starfi áfram sem sjálfstæður opinber háskóli, sameinist öðrum háskóla eða verði gerður að sjálfseignarstofnun á forræði þeirra atvinnugreina sem nám skólans lýtur að. Við þessa ákvörðun þarf ráðuneytið m.a. að leggja mat á fjárhagslega möguleika skólans til að standa fyllilega undir nafni sem sjálfstæður háskóli. Einnig þarf að meta mögulegan kostnað og ábata mismunandi valkosta. Enn fremur telur Ríkisendurskoðun að skólinn eigi ekki að annast staðarhald á Hólum enda samrýmist það illa skólahaldinu. Um skeið hefur verið unnið að því að fela öðrum þetta verkefni en fjögur ráðuneyti koma að samningum þar um.
Verði Hólaskóli áfram rekinn sjálfstætt telur Ríkisendurskoðun að ráðuneytinu og stjórnendum skólans beri að tryggja að rekstur hans byggist á raunhæfum forsendum og rúmist innan fjárheimilda. Einnig er að mati stofnunarinnar mikilvægt að fjárhagsstaða skólans verði skýrð en óvissa ríkir um hana, m.a. vegna þess að bókfært virði útistandandi viðskiptakrafna er hærra en ætla má að það sé í raun og að ekki hefur verið ákveðið hvernig fara skuli með skuldir skólans við ríkissjóð sem námu samtals 178 milljónum króna í árslok 2010. Enn fremur er að mati Ríkisendurskoðunar mikilvægt, verði skólinn starfræktur áfram í núverandi mynd, að ráðuneytið geri formlegan samning við hann um kennslu og rannsóknir þar sem markmið starfseminnar og kröfur um gæði og árangur verði skilgreind.

Sjá nánar