Ýmsar breytingar lagðar til á innra skipulagi þjóðkirkjunnar

Skýrsla til Alþingis

01.11.2011

Marka þarf heildstæða stefnu fyrir Biskupsstofu og breyta skipulagi hennar. Jafnframt ætti að draga úr lagalegum skyldum biskups til að sinna fjármálaumsýslu kirkjunnar svo hann geti einbeitt sér að faglegum málefnum hennar. Þá ber að sameina sjóði kirkjunnar og einnig sóknir landsins sem margar eru fámennar.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um nokkra þætti í skipulagi og starfsemi þjóðkirkjunnar. Fram kemur að ekki hafi verið mörkuð heildstæð stefna um starfsemi Biskupsstofu og telur Ríkisendurskoðun brýnt að úr því verði bætt. M.a. þurfi að skilgreina markmið stofunnar og ákveða hvernig mæla eigi árangur hennar. Einnig þurfi að greina á milli trúarlegra málefna annars vegar og rekstrar og fjármála hins vegar í skipulagi hennar. Því leggur Ríkisendurskoðun til að myndaðar verði tvær sjálfstæðar skipulagseiningar innan Biskupsstofu sem hvor hafi sinn yfirmann.

Kirkjuráð fer með framkvæmdarvald í málefnum þjóðkirkjunnar og tekur ýmsar ákvarðanir er varða fjárhag hennar og rekstur. Einnig úrskurðar það í málum sem því berast frá lægri stjórnsýslueiningum.  Biskup er forseti ráðsins en að mati Ríkisendurskoðunar fer ekki vel á því.  Í fyrsta lagi takmarka umfangsmikil stjórnunarstörf þann tíma sem hann hefur til að sinna meginhlutverki sínu sem faglegur leiðtogi þjóðkirkjunnar. Í öðru lagi er hætta á að biskup þurfi innan ráðsins að úrskurða um mál sem hann hafi áður komið að á lægra stjórnsýslustigi. Því leggur Ríkisendurskoðun til að lögum verði breytt og dregið úr skyldum biskups til að sinna fjármálaumsýslu kirkjunnar. Hann sitji þó áfram í kirkjuráði og hafi þar málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.

Í skýrslunni er lagt til að helstu sjóðir kirkjunnar: Kirkjumálasjóður, Kristnisjóður og Jöfnunarsjóður sókna, verði sameinaðir. Þeir hafa það hlutverk að styrkja ýmis verkefni sem tengjast helgihaldi og þjónustu kirkjunnar. Enn fremur telur Ríkisendurskoðun að móta þurfi skýrar reglur um styrki þar sem m.a. komi fram hvernig umsóknir séu metnar og hvernig fylgst sé með nýtingu styrkjanna.

Fram kemur að sóknir hér á landi séu samtals 273 og margar fámennar. Árið 2010 voru þannig 15 sóknir með 10 sóknarbörn eða færri og 145 með 100 sóknarbörn eða færri. Sóknirnar eru sjálfstæðar einingar en geta haft samstarf við aðrar sóknir innan sama prestakalls. Ríkisendurskoðun telur brýnt að settar verði reglur um lágmarksfjölda sóknarbarna í hverri sókn til að stuðla að hagkvæmum rekstri og öflugu safnaðarstarfi. Að mati stofnunarinnar á þannig fremur að fækka sóknum og stækka þær en leitast við að auka samvinnu milli þeirra.

Loks telur Ríkisendurskoðun að sóknir eigi að fara með eignarhald prestssetra og sinna viðhaldi þeirra. Þau eru nú formlega í eigu Kirkjumálasjóðs en Biskupsstofa sinnir umsýslu með þeim.

Um stjórnskipulag þjóðkirkjunnar

Fjallað er um stjórnskipulag þjóðkirkjunnar í lögum nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Kirkjuþing er æðsta valdastofnun hennar. Það kýs biskup og kirkjuráð sem fer með framkvæmdarvald í málefnum kirkjunnar í umboði þingsins. Meðal verkefna ráðsins er að hafa yfirumsjón með sjóðum kirkjunnar. Þá fjallar ráðið og úrskurðar um ýmis erindi sem því berast frá lægri stjórnsýslueiningum. Biskup er forseti kirkjuráðs en jafnframt höfuðtalsmaður þjóðkirkjunnar og hefur eftirlit með kenningum hennar og kristnihaldi í landinu. Biskupsstofa er skrifstofa biskups, kirkjuráðs og kirkjuþings. Stofan sinnir einnig ýmsum miðlægum verkefnum innan kirkjunnar og veitir öðrum einingum hennar þjónustu.

Sjá nánar