Brýnt að skuldbindingar vegna leigusamninga séu rétt færðar í bókhaldi ríkisins

Almennt

23.09.2011

Vegna fjölmiðlaumfjöllunar er varðar meðferð samninga um byggingu hjúkrunarheimila í bókhaldi ríkisins vill Ríkisendurskoðun koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.Í efnahagsreikningi ríkissjóðs, sem er hluti ríkisreiknings, skal birta með heildstæðum hætti upplýsingar um allar skuldir ríkissjóðs. Þetta stuðlar að því að Alþingi, stjórnsýslan, fjárfestar og almenningur hafi glögga yfirsýn um fjárhagslega stöðu og styrk ríkisins.

Tíðkast hefur að ríki og sveitarfélög geri samninga um leigu til langs tíma á svokölluðum varanlegum rekstrarfjármunum, t.d. húsnæði og búnaði, þar sem gert er ráð fyrir að andvirði eignanna sé í raun greitt upp á samningstímanum. Slíkir samningar nefnast fjármögnunarleigusamningar og ber samkvæmt gildandi reikningsskilareglum að sýna þá í bókhaldi ríkisins með sama hætti og ef ríkið hefði keypt viðkomandi eignir og tekið til þess lán. Skuldbindingar vegna slíkra samninga ber með öðrum orðum að sýna í efnahagsreikningi ríkisins. Ekki er heimilt að gera leigusamninga til langs tíma án þess að skuldbindingar vegna þeirra komi þar fram.

Fyrirtæki og sveitarfélög færa varanlega rekstrarfjármuni til eignar og fyrna þá síðan árlega, hvort sem um er að ræða kaup eða fjármögnunarleigu. Gjaldfærslu er þannig dreift yfir notkunartíma eignanna. Taki þessir aðilar lán, hvort sem er beint eða í gegnum fjármögnunarleigu, eru þau færð til skuldar og síðan eru vextir færðir til gjalda á hverju ári. Í bókhaldi ríkisins er hins vegar annar háttur hafður á. Samkvæmt sérreglu í 14. gr. laga um fjárreiður ríkisins ber að færa varanlega rekstrarfjármuni aðila í svokölluðum A-hluta ríkissjóðs til gjalda á því reikningsári þegar skuldbindandi samningar um kaup á þeim eru gerðir. Þetta þýðir að ef ríkið gerir samning um fjármögnunarleigu á varanlegum rekstrarfjármunum ber að gjaldfæra þá að fullu þegar samningur er gerður. Jafnframt ber að sýna heildarskuldbindingu samningsins í efnahagsreikningi.

Ríkisendurskoðun telur að tímabært sé að samræma reglur um bókfærslu varanlegra rekstrarfjármuna hjá ríkinu þeim reglum sem sveitarfélög og fyrirtæki á almennum markaði fylgja. Stofnunin telur með öðrum orðum að eignfæra eigi í efnahagsreikningi ríkisins bæði þá fjármuni sem ríkið kaupir og leigir (til langs tíma) og fyrna þá á notkunartíma. Slíkt kallar hins vegar á að lögum um fjárreiður ríkisins verði breytt en stofnunin hefur lengi kallað eftir því. Fyrrnefnd sérregla 14. gr. laganna stendur hins vegar ekki í vegi fyrir því að skuldbindingar vegna leigusamninga séu sýndar í ríkisreikningi.

Haustið 2009 samþykkti ríkisstjórnin áætlun um byggingu hjúkrunarheimila með samtals 361 hjúkrunarrými í níu sveitarfélögum á árunum 2010–2013. Áætlaður kostnaður við framkvæmdir nemur um 9 milljörðum króna. Fram hefur komið að gert sé ráð fyrir að viðkomandi sveitarfélög annist hönnun og byggingu heimilanna í samræmi við viðmið velferðarráðuneytisins en að Íbúðalánasjóður láni til framkvæmdanna. Fram­kvæmda­sjóði aldraðra eða velferðarráðuneytinu sé síðan ætlað að greiða húsaleigu næstu 40 ár til viðkomandi sveitarfélaga og reiknist hún sem ígildi stofnkostnaðar. Að mati Ríkisendurskoðunar ber að líta á leigusamning sjóðsins við sveitarfélögin sem fjármögnunarleigusamning milli ríkisins og þeirra.

Ríkisendurskoðun tekur ekki afstöðu til þeirrar ákvörðunar að ráðast í byggingu hjúkrunar­heimila né heldur til þess hvort rétt sé af ríkinu að fara fyrrnefnda leið við fjármögnun þeirra. Verði hún hins vegar farin ber stjórnvöldum að tryggja að skuld­bindingar ríkisins verði sýndar með réttum hætti í ríkisreikningi.