Skýrsla um starfsemi Ríkisendurskoðunar árið 2010

Almennt

27.04.2011

Út er komin ársskýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2010 þar sem gerð er grein fyrir starfsemi stofnunarinnar og helstu niðurstöðum athugana hennar á síðasta ári.
Samkvæmt 12. grein laga um Ríkisendurskoðun skal á hverju ári semja heildarskýrslu um störf stofnunarinnar á liðnu almanaksári og leggja hana fyrir Alþingi. Í formála sínum að Ársskýrslu Ríkisendurskoðunar 2010 segir Sveinn Arason ríkisendurskoðandi m.a. orðrétt:

Á undanförnum árum hefur Ríkisendurskoðun ítrekað bent á nauðsyn þess að ráðist verði í endurskoðun laga nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins. Á síðasta ári var fjársýslustjóri, Gunnar H. Hall, skipaður formaður ríkisreikningsnefndar og hafa hann og nefndin orðið ásátt um að efla starf hennar verulega og hefja vinnu við endurskoðun laganna. Nefndin hefur m.a. skipað starfshópa til að fjalla um einstök atriði sem lögin taka ekki á eða ágreiningur er um. Í þessu sambandi má t.d. nefna reglur er varða leigusamninga, samninga um einkaframkvæmd og skuldbindingar ríkisins í tengslum við þá, eignfærslu varanlegra rekstrarfjármuna og markaðar tekjur, svo dæmi séu nefnd. Ég vil nota tækifærið hér og fagna því að þessi vinna skuli vera hafin.

Ríkisendurskoðandi ræðir einnig um fyrirhugaðar breytingar á þingsköpum Alþingis og segir orðrétt:

Alþingi hefur hefur nú til umfjöllunar frumvarp til breytinga á lögum um þingsköp þar sem m.a. eru lagðar til breytingar á nefndaskipan þingsins. Lagt er til að komið verði á fót stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem falið verði að fjalla um skýrslur Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis. Með þessu móti er ætlunin að styrkja eftirlitshlutverk þingsins en eftirlitsnefndir af þessu tagi starfa innan þjóðþinga ýmissa nágrannaríkja okkar. Eftir sem áður er þó gert ráð fyrir að fjárlaganefnd fjalli um skýrslur Ríkisendurskoðunar um frakmvæmd fjárlaga og endurskoðun ríkisreiknings. Stofnunin er hlynnt þessari breytingu og vonar að hún nái fram að ganga.

Auk formála ríkisendurskoðanda er í skýrslunni að finna yfirlit um viðfangsefni og afrakstur stofnunarinnar árið 2010, rekstur og mannauð. Þá er birtur útdráttur úr nokkrum opinberum ritum sem stofnunin gaf út á árinu en þau voru samtals 31. Enn fremur eru í skýrslunni þrjár greinar eftir starfsmenn stofnunarinnar um ýmis efni sem tengjast starfseminni. Loks er ársreikningur stofnunarinnar birtur í skýrslunni.