Frambjóðendur til stjórnlagaþings minntir á upplýsingaskyldu

Stjórnmálastarfsemi

17.11.2010

Ríkisendurskoðun vekur athygli frambjóðenda til stjórnlagaþings á því að þeim ber lögum samkvæmt að skila stofnuninni upplýsingum um tekjur og kostnað vegna kosningabaráttu sinnar. Skilafrestur er til 28. febrúar 2011.Ákvæði laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingskyldu þeirra nr. 162/2006 gilda eftir því sem við á um framlög eða styrki sem frambjóðendur til stjórnlagaþings þiggja. Þetta segir í 8. mgr. 8 gr. laga um stjórnlagaþing nr. 90/2010. Samkvæmt 9. mgr. sömu greinar má kostnaður hvers frambjóðanda vegna kosningabaráttu að hámarki nema 2 milljónum króna.

Samkvæmt 10. gr. laga um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda skulu frambjóðendur skila Ríkisendurskoðun uppgjöri fyrir kosningabaráttu sína. Þar skal greint frá öllum framlögum og útgjöldum í samræmi við almennar reikningsskilareglur. Uppgjörið skal áritað af endurskoðanda eða bókhaldsfróðum skoðunarmanni. Uppgjörum skal skila Ríkisendurskoðun eigi síðar en 3 mánuðum frá því að kosningar fóru fram, sbr. 11. gr. laganna.

Fari kostnaður frambjóðanda af kosningabaráttu eða framlög til hans vegna hennar ekki fram úr 400 þúsund krónum skal hann einungis skila skriflegri yfirlýsingu þar um fyrir sama tímamark og að framan greinir.

Ríkisendurskoðun hefur gefið út reglur um uppgjör fyrir kosningabaráttu frambjóðenda til stjórnlagaþings. Lögin, reglurnar og sýnishorn af uppgjöri og yfirlýsingu má nálgast með því að smella hér.

Ríkisendurskoðun hvetur frambjóðendur til þess að kynna sér framangreind gögn gaumgæfilega og senda stofnuninni umrætt uppgjör eða eftir atvikum yfirlýsingu áður en 3 mánuðir eru liðnir frá kjördegi, þ.e. eigi síðar en 28. febrúar 2011.

Í samræmi við fyrirmæli laganna mun stofnunin birta útdrátt úr uppgjörum frambjóðenda. þar munu m.a. koma fram heildartekjur hvers frambjóðanda, flokkaðar eftir framlögum frá lögaðilum, einstaklingum og eiginframlögum. Nöfn og fjárhæð framlaga allra lögaðila verða birt sem og nöfn þeirra einstaklinga, sem leggja meira en 200 þúsund krónur til framboðsins. Þá munu heildarútgjöld frambjóðanda vegna kosningabaráttunar einnig verða birt.