Óskráð vanhæfisregla gildir um starfsmenn Ríkisendurskoðunar

Almennt

24.09.2010

Starfsmenn Ríkisendurskoðunar geta talist vanhæfir í skilningi stjórnsýsluréttar ef mál varða nána venslamenn þeirra. Þá hafa forstöðumenn ríkisstofnana almennt heimild til að leita ráðgjafar Ríkisendurskoðunar um fjárreiðutengd málefni. Þetta kemur fram í lögfræðiáliti sem stofnunin hefur látið vinna.Starfsmenn Ríkisendurskoðunar skulu í einu og öllu vera óháðir þeim ráðuneytum og stofnunum sem þeir hafa fagleg samskipti við, samkvæmt lögum um Ríkisendurskoðun og siðareglum hennar. Til þess að starfsmenn geti talist óháðir mega aðstæður ekki vera þannig að hætta sé á að svokölluð ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á störf þeirra. Slíkar aðstæður geta valdið því að viðkomandi starfsmaður teljist vanhæfur í skilningi stjórnsýsluréttar, að því er fram kemur í lögfræðiáliti sem Margrét Vala Kristjánsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, hefur unnið fyrir Ríkisendurskoðun.

Samkvæmt stjórnsýslulögum er starfsmaður vanhæfur ef hann er eða hefur verið skyldur eða mægður aðila máls. Lögin gilda um svokallaðar stjórnvaldsákvarðanir ríkis og sveitarfélaga en ekki um stofnanir Alþingis og dómstóla. Þar sem Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis gilda lögin ekki um hana. Engu að síður gildir óskráð vanhæfisregla stjórnsýsluréttarins um starfsfólk Ríkisendurskoðunar, samkvæmt umræddu lögfræðiáliti. Þessi regla gildir ekki aðeins um stjórnvaldsákvarðanir heldur einnig um annars konar samskipti opinberra aðila við borgara, lögaðila og aðra opinbera aðila. Þá gildir hún ekki einungis um stofnanir framkvæmdarvaldsins og sveitarfélög heldur einnig um stofnanir löggjafar- og dómsvalds. Því á hún við um endurskoðun og eftirlit á vegum Ríkisendurskoðunar. Starfsmenn stofnunarinnar geta þannig talist vanhæfir ef verkefnin beinast að þeim sjálfum eða nánum venslamönnum þeirra. Við mat á því hvort starfsmaður sé vanhæfur verður þó, samkvæmt álitinu, að meta aðstæður hverju sinni. Til að starfsmaður teljist vanhæfur við afgreiðslu máls þar sem venslamenn hans koma við sögu verða þeir síðarnefndu að eiga hagsmuni af niðurstöðu málsins. Þeir hagsmunir þurfa enn fremur að vera til þess fallnir að hafa áhrif á afstöðu starfsmannsins.

Ríkisendurskoðun lét vinna umrætt lögfræðiálit í ljósi þess að nýlega vöknuðu spurningar um mögulegt vanhæfi starfsmanna stofnunarinnar. Sveinn Arason ríkisendurskoðandi er mágur fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Kristjáns Möller, og Lárus Ögmundsson, yfirlögfræðingur stofnunarinnar, er mágur núverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Fyrr á þessu ári komu fram á opinberum vettvangi vangaveltur um hvort ríkisendurskoðandi og yfirlögfræðingur Ríkisendurskoðunar væru hugsanlega vanhæfir til að fjalla um málefni sem heyrðu undir fyrrnefnda ráðherra og jafnvel aðra ráðherra eða ríkisstjórnina í heild. Samkvæmt lögfræðiálitinu veldur vanhæfi starfsmanns til að fjalla um málefni eins ráðherra ekki því að hann verði talinn vanhæfur til að fjalla um málefni annarra ráðherra, sem ekki eru skyldir honum eða mægðir, né ríkisstjórnar í heild.

Forstöðumenn mega leita ráðgjafar Ríkisendurskoðunar

Síðastliðið vor reis ágreiningur milli þáverandi heilbrigðisráðherra og forstjóra Sjúkratrygginga Íslands vegna þess að sá síðarnefndi hafði leitað til ríkisendurskoðanda eftir leiðbeiningu um framkvæmd reglugerðar. Taldi ráðherrann að með þessu hefði forstjórinn brotið gegn trúnaðar- og hollustuskyldum sínum gagnvart sér. Í lögfræðiálitinu segir að vandséð sé að forstöðumenn ríkisstofnana brjóti gegn starfsskyldum sínum með því einu að leita ráðgjafar Ríkisendurskoðunar um fjárreiðutengd málefni. Af hlutverki Ríkisendurskoðunar og markmiðum endurskoðunar leiði að stofnunin hafi heimild til að veita starfsfólki stjórnsýslunnar ráðgjöf á þessu sviði. Hún sé til þess fallin að stuðla að réttri framkvæmd reglna og hljóti að teljast lögmæt, eðlileg og jafnvel æskileg.