Skýrsla um fjárhag Álftaness birt um miðjan júní

Almennt

21.05.2010

Ríkisendurskoðun vinnur að því að ljúka athugun á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins Álftaness. Hinn 25. janúar sl. fólu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) Ríkisendurskoðun að gera athugun á fjárhagsstöðu Sveitarfélagsins Álftaness. Skyldi athugunin beinast að tveimur atriðum. Annars vegar að því hvort gildandi reglur um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna reksturs grunnskóla tækju nægjanlegt tillit til aðstæðna á Álftanesi. Hins vegar að því hvaða ákvarðanir væru undirrót erfiðrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og hvort þær og upplýsingagjöf þess til EFS hefðu verið í samræmi við lög.

Við athugunina hefur Ríkisendurskoðun aflað margvíslegra gagna og rætt við fjölda aðila, s.s. bæjarfulltrúa og starfsmenn sveitarfélagsins Álftaness, fulltrúa ráðuneyta, EFS o.fl. Enn á eftir að ræða við nokkra aðila og greina upplýsingar en segja má að sú vinna sé á lokastigi. Stefnt er að því að skýrsludrög verði send hlutaðaeigandi aðilum til umsagnar í annarri viku júní og að endanleg skýrsla verði birt um miðjan mánuðinn.