Athugasemd vegna fjölmiðlaumræðu um prófkjörsmál

Stjórnmálastarfsemi

04.05.2010

Vegna umræðu í fjölmiðlum undanfarið um fjármál frambjóðenda sem tóku þátt í prófkjöri/forvali fyrir kosningar sem fóru fram á árunum 2006 og 2007, vill Ríkisendurskoðun árétta eftirfarandi.Í desember árið 2006 samþykkti Alþingi lög nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Ákvæði laganna um prófkjör/forval innan stjórnmálasamtaka tóku þó ekki gildi fyrr en 1. júní árið 2007. Þar er mælt svo fyrir að fari kostnaður frambjóðanda af kosningabaráttu fram úr 300 þús.kr. skuli hann skila Ríkisendurskoðun uppgjöri þar sem fram komi upplýsingar um bæði tekjur og kostnað. Lögin voru ekki á neinn hátt afturvirk og áttu því ekki við um prófkjör/forval fyrir þennan tíma. Fram til 1. júní árið 2007 hvíldi því ekki sérstök upplýsingaskylda á þátttakendum í prófkjöri/forvali. Á grundvelli laganna gaf Ríkisendurskoðun í mars 2007 út reglur sem m.a. innihéldu ákvæði um hvernig þátttakendur í prófkjöri/forvali skyldu standa að upplýsingagjöf um fjármál sín. Þessi ákvæði tóku þó ekki gildi fyrr en eftir 1. júní 2007.

Í ágúst árið 2009 samþykkti Alþingi að bæta ákvæði til bráðabirgða við lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Samkvæmt því var þátttakendum í prófkjöri/forvali á árunum 2006 og 2007 gefinn kostur á að senda Ríkisendurskoðun upplýsingar um fjárframlög frá 1. janúar 2005 til 31. maí 2007 til opinberrar birtingar. Lögbundinn lokafrestur til að skila umræddum upplýsingum rann út 15. desember 2009. Ef heildarframlög höfðu ekki farið fram úr 300 þús.kr. nægði að skila yfirlýsingu þar að lútandi en annars átti að flokka framlögin eftir uppruna þannig að greint yrði á milli framlaga frá opinberum aðilum, lögaðilum og einstaklingum. Samkvæmt ákvæðinu bar að tilgreina sérstakalega þá sem höfðu látið meira en 500 þús.kr. af hendi rakna. Ef um lögaðila væri að ræða átti að birta nafn hans nema hann krefðist trúnaðar um framlög sín. Ef um einstakling væri að ræða átti ekki en að birta nafn hans nema hann hefði samþykkt það sérstaklega. Rétt er að ítreka að frambjóðendum var ekki að lögum skylt að skila umræddum upplýsingum.

Í framhaldi af gildistöku fyrrnefnds bráðabirgðaákvæðis útbjó Ríkisendurskoðun leiðbeiningar og form sem frambjóðendur gátu fyllt í. Þau uppgjör og yfirlýsingar sem stofuninni bárust voru birt á heimasíðu hennar hinn 30. desember sl. Rétt er að undirstrika að Ríkisendurskoðun var ekki falið að endurskoða eða sannprófa fjárhagsupplýsingar frá frambjóðendum heldur eingöngu að veita þeim viðtöku og birta opinberlega. Í samræmi við fyrirmæli laganna hætti stofnunin að taka við gögnum frá frambjóðendum vegna tímabilsins 2005 til 2007 í árslok 2009.

Upplýsingar um fjárframlög til frambjóðenda í persónukjöri 2005–2009