Eyðublað til að nota við verðkannanir

Almennt

28.04.2010

Starfsmenn Ríkisendurskoðunar og Ríkiskaupa hafa í sameiningu mótað sérstakt eyðublað sem stofnanir geta notað til að kanna verð á vörum eða þjónustu.Samkvæmt lögum um opinber innkaup er stofnunum skylt að bjóða út kaup á vörum, þjónustu og verklegum framkvæmdum ef áætlað verðmæti þeirra fer yfir tiltekin viðmiðunarmörk. Þannig er skylt að bjóða út kaup á vörum ef verðmæti fer yfir 6,2 m.kr. og á þjónustu og verkum ef verðmæti fer yfir 12,4 m.kr. Sé áætlað verðmæti undir þessum viðmiðunarmörkum ber stofnunum engu að síður að gæta hagkvæmni og bera saman verð hjá sem flestum fyrirtækjum áður en ákvörðun um innkaup er tekin. Í lögunum er kveðið á um að slíkur samanburður skuli að jafnaði gerður bréflega eða með rafrænum hætti.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar Opinber innkaup. Áfangaskýrsla 3. Viðskipti ríkisstofnana við 800 birgja, sem kom út fyrr á þessu ári, er m.a. að finna ábendingar um bættar innkaupaaðferðir stofnana. Ein þeirra lýtur að nauðsyn þess að mótaður verði sérstakur gátlisti um verðkannanir þegar áætlað verðmæti innkaupa er undir fyrrnefndum viðmiðunarmörkum. Í skýrslunni lýsir Ríkisendurskoðun jafnframt vilja til að koma að gerð slíks gátlista.

Að undanförnu hafa starfsmenn Ríkisendurskoðunar og Ríkiskaupa unnið að gerð eyðublaðs sem stofnanir geta notað við formlegar verðkannanir þegar áætlað verð er undir viðmiðunarmörkunum og rammasamningar Ríkiskaupa ná ekki yfir viðkomandi vöru eða þjónustu. Eyðublaðið og frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Ríkiskaupa með því að smella hér.