Upplýsingar um fjárframlög fyrri ára til stjórnmálastarfsemi

Stjórnmálastarfsemi

30.12.2009

Ríkisendurskoðun hefur birt upplýsingar um fjárframlög fyrri ára til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Um er að ræða samræmdar upplýsingar um fjárframlög til Framsóknarflokksins, Reykjavíkurlistans og Samfylkingarinnar á tímabilinu 2002–2006. Einnig upplýsingar um framlög til aðalskrifstofa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á sama tímabili, auk nokkurra starfseininga síðarnefnda flokksins. Þá hefur stofnunin birt upplýsingar um framlög til frambjóðenda í prófkjöri/forvali vegna alþingiskosninganna 2007 og sveitarstjórnarkosninganna 2006. Enn fremur upplýsingar um framlög til frambjóðenda í formanns- og varaformannskjöri innan flokkanna á tímabilinu 2005–2009.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda geta stjórnmálasamtök farið þess á leit við Ríkisendurskoðun að hún birti upplýsingar um öll bein fjárframlög til þeirra og þau óbeinu fjárframlög sem voru 200 þús.kr. og þar yfir á tímabilinu 2002–2006. Um er að ræða framlög jafnt til landsflokkanna sem allra eininga sem undir þá falla og tengjast rekstri og eignum þeirra. Þó er heimilt að undanskilja flokkseiningar ef tekjur þeirra eru undir 300 þús.kr. á ári.

Einnig geta frambjóðendur í forvali eða prófkjöri innan stjórnmálasamtaka fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar 2006 og 2007 óskað eftir því að Ríkisendurskoðun birti upplýsingar um bein og óbein framlög til þeirra að fjárhæð 200 þús.kr. eða meira frá 1. jan. 2005 til 31. maí 2007.

Loks geta frambjóðendur í kjöri til formanns eða varaformanns stjórnmálasamtaka á tímabilinu 2005–2009 farið þess á leit að Ríkisendurskoðun birti upplýsingar um sambærileg framlög og að framan getur. Hafi heildarfjárhæð framlaga til frambjóðanda verið undir 300 þús.kr. getur hann sent einfalda yfirlýsingu til stofnunarinnar þar um án þess að tilgreina eða sundurliða fjárhæðir nánar.

Samkvæmt lögunum skal Ríkisendurskoðun samræma upplýsingar sem miðlað er til hennar samkvæmt framangreindum lagafyrirmælum og birta með samræmdum hætti fyrir lok árs 2009 niðurstöður fyrir hver stjórnmálasamtök og frambjóðendur þeirra sem hér segir:

• Heildarfjárhæð árlegra framlaga samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum.

• Heildarfjárhæð árlegra framlaga frá einstaklingum samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum.

• Heildarfjárhæð árlegra framlaga frá lögaðilum samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum.

• Tilgreina skal sérstaklega þá aðila sem veitt hafa framlag að fjárhæð 500 þús.kr. eða meira. Hafi lögaðili krafist trúnaðar um framlög sín til viðkomandi stjórnmálasamtaka skal engu að síður birta upplýsingar um fjárhæð framlagsins en upplýsingar um heiti viðkomandi aðila skulu ekki birtar. Sé um einstakling að ræða skal birting á nafni hans sem styrkveitanda ávallt byggjast á samþykki hans.

Heildstæðar upplýsingar um framlög til stjórnmálasamtaka á tímabilinu 2002–2006 bárust frá Framsóknarflokknum, Reykjavíkurlistanum og Samfylkingunni. Með heildstæðum upplýsingum er hér átt við samræmdar upplýsingar um framlög til stjórnmálasamtakanna sjálfra sem og allra eininga sem undir þá falla (samstæðuuppgjör). Jafnframt bárust upplýsingar um framlög til aðalskrifstofa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs auk nokkurra eininga sem tilheyra síðarnefnda flokknum. Ríkisendurskoðun treystir sér ekki til þess að samræma upplýsingar um framlög til þessara tveggja flokka og eininga sem undir þá falla en birtir þær í þeirri mynd sem þær bárust. Stofnunin hefur ekki fengið upplýsingar um framlög til Frjálslynda flokksins.

Upplýsingar bárust frá samtals 195 frambjóðendum sem tóku þátt í prófkjöri/forvali vegna alþingiskosninganna 2007, sveitarstjórnarkosninganna 2006 og formanns- og varaformannskjöri innan flokkanna 2005–2009. Þar af skiluðu 38 frambjóðendur uppgjöri en 157 yfirlýsingu um að heildarfjárhæð framlaga hafi verið undir 300 þús.kr. Hafa ber í huga að í sumum tilvikum tók sami einstaklingur þátt í fleiri en einu kjöri á því tímabili sem hér um ræðir. Upplýsingar bárust frá frambjóðendum á vegum Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Í-listans á Ísafirði. Ekki bárust upplýsingar um framlög til frambjóðenda Frjálslynda flokksins.

Í tengslum við söfnun framangreindra upplýsinga fór Ríkisendurskoðun þess á leit við stjórnmálaflokkana að þeir upplýstu um hve margir frambjóðendur á þeirra vegum tóku þátt í prófkjörum vegna sveitarstjórnarkosninganna 2006 og alþingiskosninganna 2007. Upplýsingar bárust aðeins frá Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum. Samkvæmt þeim tóku 72 í prófkjöri hjá Samfylkingunni og 40 hjá Sjálfstæðisflokknum vegna sveitarstjórnarkosninganna 2006. Vegna alþingiskosninganna 2007 tóku 68 þátt í prófkjöri á vegum Samfylkingarinnar en 169 á vegum Sjálfstæðisflokksins. Í þessu sambandi má jafnframt geta þess að samkvæmt upplýsingum frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hafði enginn frambjóðandi í forvali flokksins á þessu tímabili meiri kostnað en 300 þús.kr. af kosningabaráttu.