Fjölmargir frambjóðendur enn eftir að skila

Stjórnmálastarfsemi

27.10.2009

Frestur til að skila Ríkisendurskoðun upplýsingum um kostnað af prófkjörsbaráttu vegna alþingiskosninganna 2009 rann út sl. sunnudag. Af samtals 318 frambjóðendum sem tóku þátt í prófkjöri eða forvali vegna alþingiskosninganna sl. vor höfðu einungis 226 skilað upplýsingum um kostnað sinn til Ríkisendurskoðunar þegar skilafrestur rann út 25. október sl. 31 frambjóðandi hafði skilað endurskoðuðu uppgjöri en 195 undirritaðri yfirlýsingu um að kostnaður hefði ekki verið umfram 300 þús.kr. Enn eiga því fjölmargir frambjóðendur eftir að skila upplýsingum um kostnað sinn en samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda ber þeim skylda til að gera það. Þá má geta þess að samkvæmt 12. gr. laganna getur brot á þeim varðað fésektum eða fangelsi allt að sex árum.

Ríkisendurskoðun mun á næstunni vinna úr þeim upplýsingum sem henni hafa borist og í kjölfarið birta þær með samræmdum hætti, líkt og lögin kveða á um. Reiknað er með að þessi vinna muni taka einhvern tíma en stefnt er að því að birta samantekt í næsta mánuði.