Frambjóðendur hafa mánuð til að skila uppgjöri

Stjórnmálastarfsemi

23.09.2009

Aðeins lítill hluti frambjóðenda sem tóku þátt í prófkjörum stjórnmálaflokkanna vegna alþingiskosninganna sl. vor hefur skilað fjárhagslegu uppgjöri til Ríkisendurskoðunar. Skilafrestur rennur út 25. október nk. Samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda ber frambjóðendum sem hafa meiri kostnað af prófkjörsbaráttu en 300 þús.kr. að skila fjárhagslegu uppgjöri vegna hennar til Ríkisendurskoðunar. Fyrr á þessu ári sendi stofnunin frambjóðendum í prófkjörum vegna alþingiskosninganna 2009 bréf þar sem þeim var veittur skilafrestur til 25. október nk.

Nú þegar um mánuður er eftir af skilafrestinum hafa einungis um 50 af samtals 321 frambjóðanda skilað uppgjöri. Ríkisendurskoðun hefur gert ráðstafanir til að stuðla að betri heimtum en þess ber að geta að stofnunin hefur takmörkuð úrræði að þessu leyti, enda þótt lögin kveði á um að hver sá sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi brýtur gegn ákvæðum þeirra skuli sæta refsingu.

Þess ber að geta að hafi kostnaður frambjóðanda vegna prófkjörs verið 300 þús.kr. eða minni skal hann einungis skila stofnuninni skriflegri yfirlýsingu þar um. Áðurnefndur skilafrestur gildir einnig fyrir þá frambjóðendur sem þetta á við um.