Fjölmenni á málþingi um sameiningu stofnana

Almennt

22.09.2009

Á þriðja hundrað manns sótti málþing 16. september sl. um sameiningu og endurskipulagningu ríkisstofnana sem haldið var á vegum Ríkisendurskoðunar, Félags forstöðumanna ríkisstofnana og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála. Málþingið var haldið í ljósi þeirra breytinga sem fyrirsjáanlegar eru í ríkiskerfinu á næstu árum og rekja má til afleiðinga efnahagshrunsins. Vegna tekjufalls ríkissjóðs áforma stjórnvöld nú að sameina stofnanir og endurskipleggja þjónustu þeirra. Þannig er ætlunin að spara kostnað og bæta nýtingu fjármuna. Hins vegar sýna rannsóknir að ekki er sama hvernig staðið er að sameiningu stofnana og dæmi eru um að hún hafi ekki skilað þeim ávinningi sem að var stefnt.

Tilgangur málþingsins var að stuðla að umræðu um sameiningu og endurskipulagninu stofnana, aðferðir sem líklegar eru til að skila árangri og hvað læra megi af fortíðinni í þessu sambandi.

Fyrstur tók til máls Leifur Eysteinsson, sérfræðingur hjá menntamálaráðuneytinu og höfundur rits um sameiningar ríkisstofnana, og fjallaði um algeng mistök sem gerð eru við sameiningu stofnana. Næst í röðinni var Björg Eysteinsdóttir, sérfræðingur hjá Ríkisendurskoðun, sem fjallaði um niðurstöður úttekta stofnunarinnar á sameiningu stofnana undanfarin ár. Því næst tók til máls Sigurður Helgason stjórnsýsluráðgjafi sem fjallaði um mögulegan ávinning af sameiningu stofnana og hvernig eigi að standa að málum til að hann náist. Þá flutti Eyþór Eðvarðsson, þjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun ehf., erindi um breytingastjórnun og „mannlega þáttinn‘‘ við sameiningu stofnana. Loks ræddu tveir forstöðumenn reynslu sína af sameiningum stofnana og gáfu þátttakendum góð ráð, þau Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís hf., og Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari og fyrrverandi forstjóri Landspítala-háskólasjúkrahúss. Fundarstjóri var Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu.