VII. þing Evrópusamtaka ríkisendurskoðana

Almennt

18.06.2008

Dagana 2.-5. júní 2008 var VII. þing Evrópusamtaka ríkisendurskoðana (EUROSAI) haldið í Kraká í Póllandi. Þingið sóttu um 200 fulltrúar allflestra aðildarríkja samtakanna sem nú eru 48, þar á meðal tveir fulltrúar frá Íslandi. Samhliða fóru fram tveir stjórnarfundir samtakanna þar sem Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi hefur átt setu undanfarin þrjú ár. Á seinni fundinum var hann kjörinn annar varaformaður stjórnarinnar.
Frá stofnun EUROSAI árið 1990 hafa samtökin haft það að meginmarkmiði að stuðla að auknum samskiptum aðildarríkja sinna og að þau miðli milli sín faglegum upplýsingum, hugmyndum og reynslu á sviði endurskoðunar. Um leið hafa samtökin þó ævinlega virt sjálfstæði einstakra ríkisendurskoðana og rétt þeirra til að taka á eigin forsendum þátt í störfum samtakanna eða einstakra vinnuhópa sem þau standa fyrir. Þingið í Kraká samþykkti inngöngu Svartfjallalands í samtökin.

Að venju skiptist VII. þing EUROSAI í tvo meginhluta. Annars vegar var gerð grein fyrir störfum samtakanna og fastra vinnuhópa þeirra undanfarin þrjú ár og hins vegar voru tekin til umræðu þrjú fyrirfram valin þemu sem vinnuhópar innan samtakanna hafa unnið að undanfarin ár: Stofnun gæðastjórnunarkerfis við endurskoðun innan ríkisendurskoðana, endurskoðun félagslegra verkefna á sviði menntunar og endurskoðun félagslegra verkefna sem snúa að því að örva atvinnuþátttöku fatlaðra.

Í umræðu um gæðastjórnun við endurskoðun lagði þing EUROSAI sérstaka áherslu á mikilvægi þess að ríkisendurskoðanir njóti trausts þjóðþinga sinna, almennings og annarra hagsmunaaðila. Gæði endurskoðunarvinnunnar, traust aðferðafræði ríkisendurskoðananna, stöðug endurmenntun starfsmanna og góð miðlun niðurstaðna, bæði innan stofnana og utan, séu grundvallaratriði í því sambandi. Sérstaklega var bent á gildi góðrar stjórnunar, þar á meðal mannauðsstjórnunar, starfsáætlana og áhættugreiningar sem taki mið af því umhverfi sem ríkisendurskoðanirnar starfa í. Þá var lögð áhersla á að stofnanirnar meti störf sín og áætlanir út frá fyrirfram gefnum árangursmælikvörðum, með eftirfylgniskýrslum og með jafningjamati. Þing EUROSAI samþykkti að sérstakur vinnuhópur semdi drög að leiðbeiningum um gæðastjórnun.

Þingið lagði á það áherslu að menntun væri forgangsverkefni sérhvers ríkis og þar af leiðandi eitt af grundvallarviðfangsefnum hverrar ríkisendurskoðunar. Út frá kostnaði á þessu sviði var meðal annars bent á mikilvægi þess að kanna gæði og skilvirkni framhaldsskóla og hvernig bæta megi menntunarstig þeirra og draga úr brottfalli nemenda á aldrinum 15-18 ára, kanna gæði starfsmenntunar og hvernig hún mætir þörfum atvinnulífsins og kröfum um símenntun, kanna gæði háskólanáms, þar á meðal skilvirkni stjórnunar og fjárhagslegan stuðning við nemendur. Bent var á að æskilegt væri að skoða þessi mál í víðu alþjóðlegu (evrópsku) samhengi og þannig að niðurstöðurnar nýtist þjóðþingum og hagsmunaaðilum sem best.

Í umfjöllun sinni um endurskoðun félagslegra verkefna sem snúa að því að örva atvinnuþátttöku fatlaðra benti þing EUROSAI á það hversu viðkvæmur þessi málaflokkur er og hversu mikil áhætta felist oft í verkefnunum, bæði vegna þess fjár sem er í húfi og vegna háleitra og ekki alltaf raunsærra markmiða stjórnvalda. Um leið var bent á hversu vandasöm þessi endurskoðun er og hversu mikilvægt sé að taka tilliti til allra sjónarmiða og nýta sér þá sérfræðiþekkingu sem fyrir hendi er.

VII. þing EUROSAI samþykkti að næsta þing samtakanna verði haldið í Portúgal árið 2011.