Ráðstafanir gegn innflutningi ólöglegra fíkniefna

Skýrsla til Alþingis

29.11.2007

Miðað við íbúafjölda leggja íslensk löggæsluyfirvöld árlega hald á meira magn ólöglegra fíkniefna á landamærum en flestar nágrannaþjóðir okkar. Engu að síður má efla eftirlit þeirra enn frekar og nýta betur þá fjármuni sem nú er varið til þess með því að herða reglur, bæta aðferðir við áhættustjórnun og auka samvinnu tollgæslu og lögreglu. Þá þurfa yfirvöld að þróa aðferðir til að meta árangur sinn.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar Ráðstafanir gegn innflutningi ólöglegra fíkniefna kemur fram að viðbúnaður íslenskra yfirvalda vegna fíkniefnasmygls er að vissu leyti meiri en í öðrum löndum. Sé horft til íbúafjölda leggja þau líka árlega hald á meira magn ólöglegra efna á landamærum en gert er víða annars staðar. Á árunum 2003-2006 komu þau upp um samtals 493 tilraunir til að smygla slíkum efnum hingað til lands og jafngildir það því að smygltilraun hafi verið stöðvuð þriðja hvern dag allt tímabilið. Ríkisendurskoðun áætlar að götuvirði helstu flokka haldlagðra fíkniefna hafi numið tæpum 5 milljörðum króna á árinu 2006 einu saman en þá var lagt hald á óvenju mikið magn efna. Þrátt fyrir þessa viðleitni yfirvalda til að hefta framboð ólöglegra fíkniefna er talið að neysla slíkra efna hafi aldrei verið meiri en um þessar mundir.

Í skýrslu sinni bendir Ríkisendurskoðun á ýmsar aðgerðir til að sporna gegn því að ólöglegum fíkniefnum sé smyglað til landsins og nýta betur þá fjármuni sem varið er til þess verkefnis. Stofnunin bendir meðal annars á að bæta megi öryggi tollvörusvæða með því að styrkja girðingar og auka öryggisbúnað þar, auk þess sem athuga þurfi möguleikann á því að bakgrunnur þeirra sem starfa á slíkum svæðum sé jafnan kannaður. Þá er lagt til að reglur um flutning reiðufjár milli landa verði hertar og að sú hámarksfjárhæð sem farþegum er heimilt að taka með sér úr landi án skýringa verði lækkuð til samræmis við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.

Ríkisendurskoðun leggur einnig til að tollyfirvöld endurskoði aðferðir sínar við áhættustjórnun, svo að þær uppfylli alþjóðleg viðmið og standist samanburð við nágrannalönd okkar, og auki samvinnu sína við lögreglu, svo að upplýsingar og þekking nýtist sem best. Þá er lagt til að eftirlit með tilteknum flutningsleiðum til landsins verði hert og að kannaður verði sá möguleiki að veita einu tollembætti vald til að samræma eftirlit á landinu öllu. Slíkt myndi að mati Ríkisendurskoðunar stuðla að markvissara og samræmdara fíkniefnaeftirliti.

Að lokum eru yfirvöld hvött til að móta heildarstefnu um tollamál á landsvísu til nokkurra ára og þróa kerfi til að mæla árangur eftirlitsins, þ.e. þá þætti sem tollyfirvöld geta raunverulega haft áhrif á. Eins og nú háttar til vita yfirvöld ekki með vissu hvaða áhrif aðgerðir þeirra hafa á umfang fíkniefnasmygls.

Sjá nánar