XIX. Aðalþing INTOSAI

Almennt

15.11.2007

Dagana 5.-10. nóvember var XIX. Aðalþing INTOSAI haldið í Mexíkóborg. Fulltrúar Ríkisendurskoðunar á þinginu voru þeir Jón Loftur Björnsson og Þórir Óskarsson. Þing þetta var mjög fjölsótt, enda eru aðildarstofnanir INTOSAI nú alls 188 og sendu margar þeirra fjölmennar sendinefndir. Auk þeirra mættu þar fulltrúar ýmissa alþjóðlegra stofnana og félaga, svo sem Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankans (World Bank) og Alþjóðasamtaka endurskoðenda. Almennt þótti þingið velheppnað, enda skipulagning til mikillar fyrirmyndar, og afköst þess í formi saminna og samþykktra skjala óvenju mikil.

Aðalþing INTOSAI var í meginatriðum tvískipt. Annars vegar gerðu stjórnendur samtakanna, fulltrúar sjö svæðissamtaka þess og fjölmargra undirstofnana og vinnuhópa grein fyrir störfum sínum undanfarin þrjú ár. Hins vegar voru tekin til almennrar umræðu tvö fyrirfram ákveðin viðfangsefni: I. Stjórnun, áreiðanleiki og endurskoðun opinberra skulda, II. Árangursmatskerfi byggð á alþjóðlega viðurkenndum kennitölum. Auk þessa fór fram ýmiss konar kynning á undirstofnunum og vinnuhópum INTOSAI á göngum og í hliðarsölum ráðstefnustaðarins.

Óhætt er að fullyrða að þingið hafi mótast mjög af meginhugmyndafræði INTOSAI að sameiginleg reynsla komi öllum til góða (Experientia mutua omnibus prodest). Mikil áhersla var lögð á að sem flestir kæmu sjónarmiðum sínum á framfæri og að þjóðir deildu með sér reynslu og skoðunum. Sem slíkt gaf þingið mjög góða yfirsýn um þá margbreytilegu flóru sem aðildarstofnanir INTOSAI mynda og starfa í. Almennt virtust ræðumenn sammála um mikilvægi samtakanna og einnig var lögð mikil áhersla á að ná sem breiðasta samkomulagi um þau mál sem samtökin setja á oddinn.

Um leið kom iðulega í ljós hversu ólíkar stofnanirnar eru innbyrðis, m.a. vegna þess lagalega og stjórnskipulega umhverfis sem þær búa í, þeirra viðfangsefna sem þeim er ætlað að sinna og almennrar hæfni þeirra til að fást við þau. Í umræðu um stjórnun, áreiðanleika og endurskoðun opinberra skulda kom t.d. í ljós að í sumum löndum liggur ekki fyrir neitt áreiðanlegt yfirlit um það hversu miklar slíkar skuldir eru. Stjórnun þeirra og endurskoðun eru því ákaflega miklum vandkvæðum bundin. Þá kom einnig fram að á meðan sumar þjóðir litu á vaxandi skuldasöfnum sem alvarlega áhættu sáu aðrar þjóðir augljós sóknarfæri í auknum skuldum að vissu marki. Á sama hátt leiddu umræður þingfulltrúa í ljós að hugmyndin um að koma á fót kerfi byggðu á alþjóðlega viðurkenndum kennitölum til að meta árangur stjórnvalda var allsendis óraunhæf vegna mismunandi sjónarmiða þjóða um mikilvægi einstakra kennitalna og möguleika á að afla þeirra á samræmdan hátt. Lýsingarorðið „alþjóðlegur“ var því fellt niður í endanlegum samþykktum þingsins og einungis rætt um mikilvægi þess að koma á árangursmatskerfi byggðu á kennitölum.

Þrátt fyrir ýmsa annmarka voru þingfulltrúar almennt sammála um að vinna áfram að áðurnefndum verkefnum, þróa aðferðir til að ná tökum á þeim og aðstoða þær þjóðir sem ekki hafa burði til að sinna þeim. Þróunarstarf ýmiss konar er enda snar þáttur í starfi INTOSAI og augljóst að mikil áhersla verður lögð á það á komandi árum. Þróunarstofnun INTOSAI (IDI) sér því fram á aukna starfsemi.

Á sama hátt er ljóst að alþjóðlegt samstarf á sviði endurskoðunar mun aukast mjög í nánustu framtíð. Um slíkt er endurskoðun umhverfismála gott dæmi en þar geta eiginleg landamæri milli ríkja orðið mjög óljós og því eiga mörg lönd oft verulegra hagsmuna að gæta. Í þessu samhengi má nefna að ýmsir þingfulltrúar bæði nálægra og framandi þjóða höfðu verulegan áhuga á að vita um áhrif loftslagsbreytinga á íslenska náttúru, t.d. bráðnun jökla.

Annað dæmi um alþjóðlegt samstarf er utanumhald og endurskoðun þeirra miklu fjármuna sem renna árlega til alþjóðlegra hjálparstarfa, t.d. vegna náttúruhamfara. Þetta svið er enn sem komið er fremur vanþróað og ógagnsætt. Á þinginu kom t.d. fram að af um 13,2 milljarða króna framlagi Norðmanna til hjálpar- og uppbyggingarstarfa vegna flóðbylgjunnar miklu (Tsunami) í Indónesíu árið 2004 var með óyggjandi hætti einungis unnt að sýna fram á að um helmingur þess hefði skilað sér á áfangastað. Hvað um hitt varð er í raun ekki vitað. Almennt voru þingfulltrúar sammála um mikilvægi þess að úr þessu verði bætt, þ.e. að tryggt verði að alþjóðlegum fjárframlögum, sama hvort þau koma frá stjórnvöldum, einkaaðilum eða úr almennum söfnunum, sé varið á hagkvæman og skilvirkan hátt og í samræmi við upphafleg markmið með söfnun þeirra.

Í lok XIX. Aðalþings INTOSAI í Mexíkóborg var ákveðið að næsta aðalþing samtakanna fari fram í Jóhannesarborg í Suður-Afríku árið 2010.