Orðsending. Til formanns fjárlaganefndar frá Ríkisendurskoðun

Almennt

16.06.2005

Í framhaldi af fundi fjárlaganefndar í dag, 16. júní 2005, þar sem fjallað var um minnisblað Ríkisendurskoðunar frá 13. júní sl., skal tekið fram að upplýsingar í minnisblaðinu um eignarhluti í Skinney – Þinganesi hf., byggðu á hluthafalista félagsins frá 15. október 2002. Lögmanni félagsins, sem veitti upplýsingarnar fyrir þess hönd, sást yfir að sumir hluthafar í einkahlutafélaginu Ketillaugu, sem var eigandi að 17,9% í Skinney – Þinganesi hf. skv. framangreindum lista, voru venslaðir Halldóri Ásgrímssyni.

Samkvæmt upplýsingum, sem aflað hefur verið frá lögmanni félagsins í beinu framhaldi af fundi fjárlaganefndar í dag, átti Halldór Ásgrímsson engan hlut í félaginu og mun aldrei hafa átt. Eignarhaldi á Ketillaugu ehf. hinn 15. nóv. 2002 var háttað sem hér segir:

Birgir Sigurðsson 16,667%
Ingólfur Ásgrímsson 16,667%
Gunnar Ásgeirsson 16,667%
Guðrún Ingólfsdóttir 16,667%
Ingvaldur Ásgeirsson 16.667%
Aðalsteinn Ingólfsson 16,667%

Ingólfur, Guðrún (nú látin) og Aðalsteinn eru öll vensluð Halldóri Ásgrímssyni. Samanlagður eignarhlutur þeirra í Ketilaugu ehf. var því 50%.

Hlutur Ketillaugar ehf. í Skinney – Þinganesi hf. í nóv. 2002 var eins og áður segir 17,9% skv. upplýsingum úr hluthafaskrá Skinneyjar – Þinganess hf. Að teknu tilliti til framangreindra upplýsinga breytist óbeinn hlutur þeirra, sem venslaðir eru Halldóri, í Skinney – Þingnesi hf. úr því að vera u.þ.b. 25%, eins og frá er greint í nefndu minnisblaði, í u.þ.b. 34% á nefndu tímabili.

Að mati Ríkisendurskoðunar breyta ofangreindar upplýsingar ekki þeirri niðurstöðu stofnunarinnar að Halldór Ásgrímsson hafi ekki verið vanhæfur til að fjalla um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum á sínum tíma á vettvangi ráðherranefndarinnar.

Ríkisendurskoðun lítur svo á að þetta hafi verið eina atriðið, sem hún hafi ekki veitt fullnægjandi svar við á fundi fjárlaganefndarinnar. Að gefnu þessu svari lítur stofnunin svo á að málinu sé lokið af hennar hálfu.