Ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2004

Almennt

30.03.2005

Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér ársskýrslu sína fyrir árið 2004. Þar er m.a. gerð grein fyrir hlutverki stofnunarinnar og meginverkefnum, starfseminni árið 2004 og nokkrum lykiltölum í rekstri. Þá horfir ríkisendurskoðandi yfir farinn veg og fimm starfsmenn stofnunarinnar lýsa þeim sjónarmiðum og aðferðum sem móta dagleg störf þeirra.

Ársskýrslu Ríkisendurskoðunar fylgir sundurliðaður ársreikningur og kemur þar m.a. fram að rekstur stofnunarinnar var um 1% innan fjárheimilda ársins. Alls lækkaði raunkostnaður hennar um 7,5% miðað við árið 2003. Launakostnaður hélst óbreyttur en rekstrar- og stofnkostnaður lækkaði um 10 m.kr. og er þá ekki talinn með 18 m.kr. kostnaður við breytingu á húsnæði stofnunarinnar árið 2003. Með þessum aðhaldsaðgerðum tókst stofnuninni að laga rekstur sinn að fjárheimildum ársins eins og að var stefnt. Þær höfðu hins vegar nokkur áhrif á reksturinn.

Hinn 31. desember 2004 voru fastráðnir starfsmenn Ríkisendurskoðunar alls 49 miðað við 51 árið áður. Unnum ársverkum við endurskoðun fækkaði einnig um rúmlega tvö milli ára eða 6%. Sem afleiðing þessa fækkaði árituðum ársreikningum og endurskoðunarskýrslum um 4,3% frá árinu 2003 og opinberum skýrslum um tvær. Stofnuninni tókst engu að síður að standa við þær áætlanir sem gerðar voru í upphafi árs 2004 og þegar á heildina er litið var árangur ársins vel viðunandi. Samtals áritaði stofnunin 357 ársreikninga, samdi 259 endurskoðunarbréf og sendi frá sér 11 opinberar skýrslur. Ef árið 2003 er undanskilið hefur afrakstur stofnunarinnar aldrei verið meiri.

Sjá nánar