Morgunmálþing: Opinber stjórnun og stjórnsýsluumbætur

Almennt

14.09.2004

Fimmtudaginn 16. september nk. flytur Sir John Bourn ríkisendurskoðandi Bretlands og gestaprófessor við London School of Economics, fyrirlestra á morgunmálþingi, um opinbera stjórnun og stjórnsýsluumbætur í Bretlandi. Málþingið verður haldið á Grand-hótel í Reykjavík. Húsið opnar kl. átta, en dagskráin hefst uppúr hálf níu og lýkur um kl. 10.30. Að málþinginu standa Félag forstöðumanna ríkisstofnana, Ríkisendurskoðun og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Málþingið fer fram á ensku, er opið öllu áhugafólki um stjórnsýslu meðan rými leyfir og er aðgangur ókeypis. Málþingsstjóri verður Páll Skúlason háskólarektor.

Bretland hefur staðið framarlega í þeirri hreyfingu umbóta í opinberri stjórnsýslu sem staðið hefur í á annan áratug á Vesturlöndum. Mörg nýmæli sem voru þróuð þar, hafa verið tekin upp í öðrum löndum. Fróðlegt er því að fá yfirlit og mat þessa reynda embættismanns og fræðimanns, á þeirri reynslu. Meðal þess sem hann fjallar um er eftirfarandi: Hvað merkir vönduð opinber stjórnun (Good Governance) í Bretlandi. Hvaða aðferðum beita stofnanir þar í stefnumótun, markmiðssetningu og mati á árangri? Hvernig er tryggð ábyrgð stofnana og stjórnenda (The Accountabilty Cycle) í Bretlandi. Loks mun Sir John Bourn fjalla um þau umbótamál sem efst eru á baugi í Bretlandi um þessar mundir, einkum í heilbrigðis og menntakerfi. Tími mun gefast til fyrirspurna og umræðna.

Sir John Bourn hefur verið ríkisendurskoðandi Bretlands frá árinu 1988. Hann hefur sem slíkur staðið að útgáfu fjölda skýrslna til breska þingsins um árangur og skilvirkni hins opinbera í Bretlandi, hjá ráðuneytum og opinberum stofnunum. Sir John Bourn er með doktorspróf frá London School of Economics í hagfræði. Hann er með víðtæka starfsreynslu innan breskra stjórnkerfisins m.a. fjármálaráðuneyti og varnarmálaráðuneyti. Auk þess að vera gestaprófessor hjá London School of Economics, er hann eftirsóttur fyrirlesari og heldur árlega fjölda fyrirlestra víða um heim.