Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Stjórnsýsluendurskoðun

Skýrsla til Alþingis

26.08.2004

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri stenst fyllilega samanburð við Landspítala — háskólasjúkrahús og hliðstæð bresk sjúkrahús þegar metin eru afköst og gæði þeirrar þjónustu sem veitt er. Uppbygging á húsnæði sjúkrahússins hefur hins vegar verið ómarkviss undanfarin ár og almannafé illa nýtt. Þá hefur ekki tekist að halda kostnaði við rekstur sjúkrahússins innan ramma fjárlaga.

Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er leitast við að meta starfsemi þess á árunum 1999-2002. Sérstaklega er horft til skilvirkni, afkasta og gæða þeirrar heilbrigðisþjónustu sem veitt er en einnig til almenns rekstrar, stjórnunar og rannsókna. Til samanburðar er tekið mið af starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss og nokkurra breskra sjúkrahúsa.

Á Akureyri er almenn heilbrigðisþjónusta í meginatriðum í höndum sjúkrahúss og heilsugæslu. Þetta er í raun annað fyrirkomulag en í Reykjavík þar sem sjálfstætt starfandi sérfræðingar gegna stóru hlutverki. Þar leitar hver íbúi að jafnaði um fjórum sinnum oftar til sjálfstætt starfandi sérfræðinga en íbúar Akureyrar gera að meðaltali. Heilbrigðisyfirvöld verða að meta hvaða fyrirkomulag tryggir best hagkvæmni og jöfnuð og stýra þróun heilbrigðiskerfisins í þá átt. Það meginfyrirkomulag sem er á Akureyri á sér stoð í ýmsum fyrirmælum stjórnvalda. Það hefur þann kost að vera einfalt og auðveldar það yfirsýn um þjónustuna og skipulagningu hennar.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Fjórðungssjúkrahúsið hefur átt frumkvæði að aukinni samvinnu um heilbrigðisþjónustu við sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir á Norður- og Austurlandi. Þannig hefur það skotið styrkari stoðum undir starfsemi sína sem öflugs sérgreinasjúkrahúss. Ljóst er að enn eru tækifæri til að efla sjúkrahúsið á þessu sviði og gæti skýr stefnumótun stjórnvalda ýtt undir slíka þróun. Athuga þarf hvort ekki megi nýta þá aðstöðu sem sjúkrahúsið býr yfir vegna nýrra verkefna. Sóknarfæri sjúkrahússins gætu t.d. tengst aukinni þjónustu við landsbyggðina.

Árið 1994 var tekin fyrsta skóflustunga að nýju viðbótarhúsnæði sjúkrahússins. Vegna fjárskorts hafði aðeins ein af fjórum hæðum hússins verið innréttuð í lok árs 2002 og stóð það því að mestu ónotað. Þá hefur komið í ljós að vegna hönnunar nýtist húsnæðið afar illa fyrir legudeildir eins og áætlanir gerðu ráð fyrir. Óljóst er hver ber ábyrgð á þessu ómarkvissa uppbyggingastarfi og þeirri fjársóun sem því tengist, en endanlega hlýtur hún að liggja hjá fjárveitingavaldinu og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að skilvirkni Fjórðungssjúkrahússins breyttist lítið á árunum 1999 til 2002 þegar miðað er við þann mannafla sem var til ráðstöfunar. Vegna launaþróunar innan sjúkrahússins fékkst hins vegar hlutfallslega minni þjónusta miðað við þá fjármuni sem varið var til starfseminnar í lok tímabilsins en í byrjun þess. Ástæðu þessa má þó fremur rekja til ytri aðstæðna en frammistöðu stjórnenda sjúkrahússins.

Almennt er ekki ástæða til að gera athugasemdir við afköst og einingakostnað Fjórðungssjúkrahússins. Hlutfallslega veitir það álíka mikla þjónustu miðað við fjármuni og mannafla og Landspítalinn og bresku sjúkrahúsin sem horft var til. Þá leiddi samanburður einnig í ljós að sjúklingum Fjórðungssjúkrahússins reiddi í fleiri tilvikum betur af eftir aðgerð en sjúklingum hinna sjúkrahúsanna. Þetta gefur til kynna að það veiti almennt góða þjónustu.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur lent í sömu stöðu og aðrar innlendar sjúkrastofnanir að útgjöld hafa aukist umfram fjárheimildir. Þyngst vegur aukinn launakostnaður en lyf og lækninga- og hjúkrunarvörur hafa einnig hækkað umtalsvert. Vegna þessa hefur þurft að leggja sjúkrahúsinu til verulegar viðbótarfjárheimildir.

Ljóst er að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni verða að taka mið af þeim miklu umskiptum sem hafa orðið á rekstrarumhverfi þeirra, t.d. vegna tæknibreytinga, fólksflutninga og aukinna krafna um gæði þjónustu. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið þarf hins vegar að stýra þeirri þróun á markvissan hátt þannig að veitt sé góð þjónusta á sem hagkvæmastan hátt hverju sinni en tilviljanir séu ekki látnar ráða ferðinni.

Sjá nánar