Umhverfisendurskoðun í hnotskurn. Hlutverk Ríkisendurskoðunar á sviði umhverfisendurskoðunar

Almennt

13.01.2004

Umhverfisendurskoðun er tiltölulega ný grein innan endurskoðunar. Hún tók fyrst að þróast fyrir um 25 árum í tengslum við vitundarvakningu almennings, fyrirtækja og stjórnvalda um að hugað sé að umhverfisáhrifum af starfsemi fyrirtækja og opinberra stofnana og að lagt sé óháð mat á árangur þeirra. Við umhverfisendurskoðun ríkisendurskoðenda er einkum leitast við að kanna hvernig lögum um umhverfismál er framfylgt og meta hagkvæmni þeirra og þann árangur sem þau leiða af sér, bæði umhverfislegan og fjárhagslegan. Með þessu móti fást í senn mikilvægar upplýsingar um stefnu stjórnvalda og einstakra opinberra stofnana og fyrirtækja í umhverfismálum og um stöðu þessa málaflokks. Allar líkur eru á því að umhverfisendurskoðun fái aukið vægi hér á landi á komandi árum, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum, og því hyggst Ríkisendurskoðun leggja aukna áherslu á þennan þátt starfsemi sinnar.

Með ritinu Umhverfisendurskoðun í hnotskurn. Hlutverk Ríkisendurskoðunar á sviði umhverfisendurskoðunar (desember 2003) vill Ríkisendurskoðun kynna þessa nýju grein endurskoðunar og leggja grundvöll að frekari vinnu stofnunarinnar á þessu verksviði. Í ritinu er gerð rækileg grein fyrir inntakiumhverfisendurskoðunar, sögu, aðferðafræði, verkefnum og ýmsum þáttum sem einkenna hana. Meðal annars er vikið að þremur meginflokkum greinarinnar: mati á árangri tiltekinna framkvæmda á sviði umhverfismála, athugun á fjárhagslegri hagkvæmni þeirra og könnun á því hvernig lögum og reglum um þennan málaflokk er framfylgt. Eðlilegt er að Ríkisendurskoðun komi að öllum þessum þáttum en í lögum um stofnunina nr. 86/1997 er sérstaklega vikið að heimild hennar til að kanna hvernig stjórnvöld framfylgja áætlunum, lagafyrirmælum og skuldbindingum á sviði umhverfismála. Ljóst er að umhverfisendurskoðun hlýtur að tengjast öðrum verksviðum Ríkisendurskoðunar með ýmsu móti, bæði fjárhagsendurskoðun og stjórnsýsluendurskoðun, en um leið er sérstaða hennar ótvíræð vegna þeirra verkefna sem hún beinist að.

Þar sem umhverfisendurskoðun er í eðli sínu alþjóðleg grein fjallar rit Ríkisendurskoðunar nokkuð um það hvernig önnur ríki hafa sinnt henni og þau verkefni sem unnin hafa verið á þessu sviði. Einkum er horft til þeirra ríkja sem hafa átt mestan þátt í að þróa greinina, eru í fararbroddi í umhverfisendurskoðun eða standa landfræðilega í nánustu tengslum við Ísland, en eðlilegt er að Ríkisendurskoðun taki að einhverju leyti mið af reynslu þeirra við umhverfisendurskoðun. Í lok ritsins er listi yfir íslensk lög og reglugerðir sem gilda á sviði umhverfismála, umhverfisstaðla, þá þjóðréttarsamninga um umhverfismálefni sem Ísland er aðili að og mikilvægar alþjóðlegar samþykktir.

Meðal verkefna í umhverfisendurskoðun sem Ríkisendurskoðun hefur unnið að á síðustu misserum má nefna úttekt á því hvernig Ísland hefur fylgt eftir aðild sinni að svonefndum OSPAR-samningi um verndun NA-Atlantshafsins, könnun á Skógrækt ríkisins og úttekt á löggjöf og framkvæmd grænna reikningsskila. Næstu verkefni munu fjalla um landshlutabundin skógræktarverkefni og um laxeldi.

Sjá nánar