Einkavæðing helstu ríkisfyrirtækja árin 1998-2003

Skýrsla til Alþingis

11.12.2003

Ríkisendurskoðun telur að íslensk stjórnvöld hafi í meginatriðum náð helstu markmiðum sínum með einkavæðingu ríkisfyrirtækja á árunum 1998-2003. Þá verður að telja að framkvæmdanefnd um einkavæðingu hafi almennt fylgt settum verklagsreglum við sölu fyrirtækja og haft markmið stjórnvalda með einkavæðingu að leiðarljósi í störfum sínum. Nokkrir hnökrar voru þó á framkvæmdinni í einstökum tilvikum.

Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér skýrsluna „Einkavæðing helstu ríkisfyrirtækja árin 1998-2003“. Skýrslan var samin að beiðni Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í þeim tilgangi að meta störf framkvæmdanefndar um einkavæðingu og kanna hvort stjórnvöld hefðu náð markmiðum sínum með einkavæðingunni. Hugað var að sölu og sölutilraunum á 9 fyrirtækjum í eigu ríkisins frá 1998-2003 og sjónum einkum beint að eftirfarandi atriðum: endurskipulagningu fyrirtækja fyrir sölu, markmiðum með sölu, tímasetningu sölu, verðmætamati, söluaðferð, mati á kauptilboðum og kostnaði og tekjum við einkavæðingu. Einnig var stuðst við leiðbeiningarreglur Aþjóðasamtaka ríkisendurskoðenda um endurskoðun einkavæðingarverkefna.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur m.a. fram að umrædd fyrirtæki voru alla jafna vel undirbúin fyrir sölu og sömuleiðis að markmið stjórnvalda voru höfð að leiðarljósi í söluferlinu. Þá verður ekki sagt annað en að sala fyrirtækjanna hafi almennt verið heppilega tímasett ef undan er skilin sölutilraun ríkisins á Landssíma Íslands hf. sem gerð var þegar verðbréfamarkaðurinn var í mikilli lægð. Að jafnaði fylgdi framkvæmdanefnd um einkavæðingu þeirri verklagsreglu að meta verð fyrirtækja eftir markaðsvirði þeirra. Sá galli er hins vegar á verklagsreglum nefndarinnar að þar kemur ekki nógu skýrt fram hvernig standa skuli að endanlegri verðlagningu sem hlýtur alltaf að ráðast af markaðsaðstæðum hverju sinni. Ríkisendurskoðun telur að ekki sé hægt að setja algilda reglu um æskilegt sölufyrirkomulag á ríkisfyrirtækjum heldur þurfi að ákveða það hverju sinni. Að jafnaði virðist þó best að hafa sem fæst skilyrði umfram þau sem lög kveða á um. Ríkið virðist t.d. í aðeins skamman tíma geta náð fram markmiðum um dreifða eignaraðild. Þá virðist sú aðferð hafa verið óheppileg að auglýsa ráðandi hlut í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. í einu. Í fyrsta lagi var ekki komin reynsla á þá söluaðferð sem valin var og í öðru lagi gaf hún minni möguleika á að viðhalda samkeppni milli áhugasamra kaupenda.

Kostnaður vegna sölu þeirra fyrirtækja sem voru að fullu seld á tímabilinu nam rúmum 410 milljónum króna eða um 0,76% af söluandvirðinu. Þegar bætt er við sameiginlegum kostnaði vegna framkvæmdanefndar um einkavæðingu og þeim kostnaði sem hlaust af tilrauninni til að selja Landssíma Íslands hf. verður heildarkostnaðurinn um 680 milljónir króna eða 1,24% af söluandvirðinu, 55 milljörðum króna. Í erlendum leiðbeiningum er almennt talið að kostnaður við einkavæðingu sé innan eðlilegra marka þegar hann er á bilinu 1-3% af heildarsölu-andvirðinu.

Þó að stjórnvöld hafi þegar á heildina er litið náð meginmarkmiðum sínum með einkavæðingunni er oft erfitt að meta nákvæmlega hvernig til tókst þegar horft er til einstakra tilvika. Með sölu Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. varð íslenski fjármálamarkaðurinn að vísu samkeppnishæfari, sterkari til útrásar og skilvirkari en hann var 1998. Fátt bendir hins vegar til þess að þjónustugjöld viðskiptabankanna hafi lækkað og hagur almennings þar með vænkast eins og að var stefnt. Þá má einnig deila um hvort það markmið ríkisins að fá hámarksverð fyrir eign sína hafi náðst við sölu bankanna. Á sama hátt má deila um þýðingu einkavæðingarinnar við að efla hlutabréfamarkaðinn þegar til lengri tíma er litið þar sem einungis nokkur hluti seldra fyrirtækja ríkisins, þ.e. fjármálastofnanirnar, eru á almennum markaði. Fjölmargir þeirra sem keyptu hlutabréf þegar fyrirtæki voru einkavædd hafa líka selt hlut sinn og í sumum tilvikum hafa stórir eignarhlutir safnast á fárra hendur.

Í skýrslu sinni kemur Ríkisendurskoðun með nokkrar tillögur og ábendingar vegna einkavæðingar ríkisins. Meðal annars er lagt til að tryggt verði enn betur en gert hefur verið að framkvæmdanefnd um einkavæðingu komi strax í upphafi að sölu einstakra ríkisfyrirtækja svo að vinnubrögð séu samræmd. Einnig þurfi að setja skýrari reglur um verðlagningu eftir að verðmat liggur fyrir þar sem m.a. sé tekið mið af markaðsaðstæðum á sölutíma. Þá þurfi að tryggja að þeir sem leggja vinnu í tilboð fái skýrar upplýsingar um það hvernig tilboð verði metin. Að lokum leggur Ríkisendurskoðun áherslu á að gengið verði frá sérstöku fjárhagslegu uppgjöri við lok hverrar sölu.

Sjá nánar