Áreiðanleiki gagna í upplýsingakerfum

Almennt

08.04.2002

Ríkisendurskoðun hefur gefið út leiðbeiningarrit um vélrænt innra eftirlit fyrir stjórnendur og starfsmenn ríkisstofnana. Tilgangur ritisins er að auka þekkingu ríkisstarfsmanna á þeim aðferðum sem vélrænt innra eftirlit byggist á. Ritinu er m.a. ætlað að nýtast stofnunum við val og stillingar nýrra upplýsingakerfa og við endurbætur eldri kerfa. Í því eru taldar upp 86 vélrænar eftirlitsaðgerðir og lýst, víða með dæmum, hvaða hlutverk og þýðingu þær hafa.

Fjárhagslegt innra eftirlit miðar m.a. að því að tryggja að upplýsingar um fjárreiður og rekstur á hverjum tíma séu áreiðanlegar. Með tölvuvæðingunni hefur orðið sú breyting að innra eftirlit ríkisstofnana er nú að stórum hluta orðið vélrænt, þ.e. innbyggt í virkni tölvukerfa. Ritinu er ætlað að kynna helstu aðferðir sem vélrænt innra eftirlit byggist á og er fyrst og fremst samið með þarfir stjórnenda og almennra starfsmanna í huga en ekki forritara. Af því leiðir að ekki er um „tæknilegan“ texta að ræða heldur er leitast við að fjalla um viðfangsefnið með almennu orðalagi.

Hugtakið áreiðanleiki vísar til þess hversu traust gögn í upplýsingakerfum eru talin vera. Gögn eru áreiðanleg ef þau eru talin gefa rétta mynd af tilteknu ástandi. Almennt má segja að áreiðanleiki rafrænna gagna byggist á því að þau séu rétt, heil og gild. Í ritinu er fjallað um 86 eftirlitsaðgerðir/atriði og eru þau flokkuð eftir því hvort þeim er ætlað að tryggja að gögn séu rétt, heil eða gild.

Sjá nánar