Nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkisins árið 2000

Skýrsla til Alþingis

06.03.2002

Kostnaður ríkisins vegna launa fyrir setu í nefndum, stjórnum og ráðum á þess vegum nam alls 417 m.kr. á árinu 2000, samkvæmt nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar. Fram kemur að stór hluti kostnaðarins hafi verið vegna greiðslna til starfsmanna ríkisins og telur stofnunin að það veki upp spurningar þar sem í mörgum tilvikum megi líta svo á að nefndarseta sé hluti af starfi þeirra. Einnig kemur fram í skýrslunni að nefndum, stjórnum og ráðum hafi fjölgað um helming milli áranna 1985 og 2000, þótt setja verði ákveðinn fyrirvara um tölur í því sambandi. Þá leiðir skýrslan í ljós að ekki liggur ávallt fyrir hvert er hlutverk stjórna sem starfa í stofnunum ríkisins. Ríkisendurskoðun telur að í þeim tilvikum þegar bæði stjórn og forstöðumaður eru sett yfir stofnun skapist óvissa um skiptingu ábyrgðar og er lagt til að kannað verði hvort nauðsynlegt sé að starfrækja stjórnir í öllum þeim stofnunum þar sem þær eru nú. Í skýrslunni er ennfremur lagt til að Þóknananefnd verði falið að ákvarða greiðslur fyrir ýmis aukastörf sem nefndar- eða stjórnarmenn vinna í þágu þeirra nefnda eða stjórna sem þeir eiga sæti í.

Í skýrslunni eru birtar niðurstöður úttektar stofnunarinnar á skipun og verkefnum nefnda, ráða og stjórna sem störfuðu á vegum ríkisins árið 2000. Á því ári voru starfandi 910 nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkisins. Samtals sátu 4456 fulltrúar í þeim eða að meðaltali 4,9 fulltrúar í hverri, en hafa ber í huga að sami einstaklingur getur átt sæti á fleiri en einni nefnd, stjórn eða ráði.

Árið 1985 störfuðu 600 nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkisins samkvæmt skýrslu Fjárlaga- og hagsýslustofnunar frá 1986. Fjölgunin milli áranna 1985 og 2000 nemur 52% sé tekið mið af samanburði sem birtur er í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þó ber að hafa í huga að nokkur munur er á skýrslunum tveimur að því er varðar það hvað telja skuli nefnd, stjórn eða ráð. Hins vegar þykir samanburðurinn gefa ákveðna vísbendingu um þróunina á tímabilinu.

Flestar nefndir, ráð eða stjórnir störfuðu á vegum menntamálaráðuneytis. Þær voru 237 árið 2000 eða 26,1% af heildarfjölda. Næst í röðinni kom heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið en undir það heyrðu 103 nefndir, stjórnir og ráð eða 11,3% af heildarfjölda.

Samkvæmt athugun Ríkisendurskoðunar nam launakostnaður vegna nefnda, stjórna og ráða á árinu 2000 alls 417 m.kr. Fram kemur í skýrslunni að reynst hafi erfiðleikum bundið að nálgast þennan kostnað vegna þess að launakostnaður í tengslum við nefndir, stjórnir og ráð sé ekki ávallt aðskilinn frá öðrum launakostnaði í bókhaldi. Ríkisendurskoðun telur að búa verði þannig um hnúta að unnt sé að nálgast upplýsingar um þessa tegund launagreiðslna í bókhaldskerfi ríkisins án mikillar fyrirhafnar.

Úttektin náði einungis til launakostnaðar sem ríkið ber vegna nefnda, ráða og stjórna á þess vegum en ekki til greiðslna fyrir aukastörf sem innt eru af hendi í tengslum við starf þeirra, t.d. ýmiss konar sérfræðiþjónustu. Þannig er hugsanlegt að fulltrúi í nefnd fái auk nefndaþóknunar greitt fyrir tiltekin aukastörf sem unnin eru í þágu nefndarinnar. Ríkisendurskoðun telur að í slíkum tilvikum eigi að fela Þóknananefnd að úrskurða um greiðslur.

Í skýrslunni er vakin athygli á ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að því er varðar hlutverk og ábyrgð forstöðumanna. Bent er á að samkvæmt lögunum beri forstöðumaður ábyrgð gagnvart ráðherra á því að stofnun sem hann stýrir starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf, að rekstur hennar sé í samræmi við fjárlög, og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Í ljósi þessa er í skýrslunni spurt hver sé eða eigi að vera ábyrgð stjórna. Að mati Ríkisendurskoðunar er starfi sumra stofnana þannig háttað að ekki verður séð að rök séu fyrir því að auk forstöðumanns séu settar yfir þær sérstakar stjórnir.

Úttektin fól meðal annars í sér að valdar voru 51 nefnd og kannað hvernig starfi þeirra var háttað árið 2000. Í ljós kom að níu nefndir eða 18% störfuðu ekkert á árinu og skiluðu engum árangri, þ.e. héldu ekki reglulega fundi, skiluðu ekki skýrslu um störf sín, afgreiddu ekki nein erindi o.s.frv. Ríkisendurskoðun telur að í mörgum tilvikum hafi skipun nefndar verið óþörf og að leysa hefði mátt verkefnin á annan hátt. Þá voru dæmi um að starf nefndar lægi niðri eða að verkefni hennar hefði verið falið öðrum, án þess þó að nefndin hefði verið leyst upp. Að mati Ríkisendurskoðunar ber í slíkum tilvikum að leggja nefndir niður.

Ríkisendurskoðun álítur að þegar nefndir eru skipaðar til tímabundinna verkefna sé brýnt að þeim sé settur ákveðinn tímarammi. Í því sambandi beinir stofnunin þeim tilmælum til ráðuneyta að árlega verði farið yfir störf nefnda sem starfa á þeirra vegum og metið hvort ástæða sé til að starfrækja þær áfram.

Loks er í skýrslunni að finna flokkun á nefndum, stjórnum og ráðum út frá hlutverki og eðli þeirra.

Sjá nánar