Skrifstofa Ríkisendurskoðunar opnuð á Akureyri

Almennt

31.05.2021

Ríkisendurskoðun opnaði nýverið skrifstofu á Akureyri. Er skrifstofunni einkum ætlað að annast þau verkefni Ríkisendurskoðunar sem varða ríkisstofnanir á Norður- og Austurlandi. Þar má m.a. nefna fjárhagsendurskoðun aðila í A-hluta ríkissjóðs, t.d. heilbrigðisstofnanir og lögreglu- og sýslumannsembætti. Jafnframt mun skrifstofan á Akureyri sinna ákveðnum verkefnum á sviði rafrænnar þjónustu sem varða landið allt. Loks mun starfsfólk á Akureyri taka þátt í stjórnsýsluendurskoðunarverkefnum og ýmsum úttektum sem unnið er að hjá Ríkisendurskoðun á hverjum tíma. Er skrifstofan m.a. tengd aðalskrifstofunni í gegnum Teams-hópvinnuforrit og skiptir þá litlu hvar starfsfólk er staðsett við úrvinnslu gagna og ritun skýrslna. Þá getur stór hluti samskipta og funda með hlutaðeigandi aðilum átt sér stað í gegnum fjarfundabúnað.

Skrifstofan var formlega tekin í notkun föstudaginn 28. maí að viðstaddri framkvæmdastjórn Ríkisendurskoðunar og góðum gestum, m.a. alþingismönnum, starfsfólki Alþingis, bæjarfulltrúum á Akureyri og forstöðumönnum nokkurra stofnana á Norðurlandi. Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, flutti ávarp og lýsti undirbúningi að opnun skrifstofunnar og hvenær hugmyndin að stofnun hennar hefði fyrst komið til tals. Þá flutti Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, einnig ávarp þar sem fram kom ánægja bæjarstjórnar Akureyrarbæjar með þetta framtak Ríkisendurskoðunar og þau tækifæri sem nýja skrifstofan ber með sér. Að loknum ræðuhöldum tóku viðstaddir undir árnaðaróskir til starfsfólks Ríkisendurskoðunar um velfarnað í komandi verkefnum.

Mynd með fréttSteingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis flytur ávarp
 

Mynd með fréttFulltrúar Alþingis ásamt Guðmundi Helgasyni forstöðumanni skrifstofu Ríkisendurskoðunar á Akureyri, Auður Elva Jónsdóttir fjármálastjóri, Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir alþingismaður og Guðjón Brjánsson 1. varaforseti Alþingis
 

Mynd með fréttEyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri, Gunnar Karlsson sviðsstjóri hjá ríkisskattstjóra, Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi og Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi á Akureyri
 

Mynd með fréttGuðrún Jenný Jónsdóttir staðgengill ríkisendurskoðanda, Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir sviðsstjóri hjá Ríkisendurskoðun og Birgitta Arngrímsdóttir mannauðsstjóri Ríkisendurskoðunar

Mynd með fréttGuðmundur Björgvin Helgason forstöðumaður skrifstofu Ríkisendurskoðunar á Akureyri og Páley Bergþórsdóttir lögreglustjóri á Norðurlandi eystra
 

Mynd með fréttHilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi, Sóley Björk Stefánsdóttir bæjarfulltrúi og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar

Mynd með fréttGuðrún Vaka Þorvaldsdóttir, Guðmundur B. Helgason, Guðbjartur Ellert Jónsson og Einar Örn Héðinsson starfsmenn skrifstofu Ríkisendurskoðunar á Akureyri

Mynd með fréttGunnar Karlsson sviðsstjóri hjá ríkisskattstjóra og Guðjón Brjánsson 1. varaforseti Alþingis
 

Mynd með fréttSteingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis, Eyjólfur Guðmundsson rektor og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir alþingismaður
 

Mynd með fréttFundargestir hlýða á ávarp forseta Alþingis

Mynd með frétt