Nýr ríkisendurskoðandi kjörinn af Alþingi

Almennt

13.06.2022

Guðmundur Björgvin Helgason var kjörinn ríkisendurskoðandi á Alþingi þann 9. júní sl. og er sjötti einstaklingurinn til að gegna embættinu. Guðmundur hefur verið settur ríkisendurskoðandi síðan 1. febrúar 2022, þegar Skúli Eggert Þórðarson hvarf til annarra starfa.

Guðmundur hóf störf hjá Ríkisendurskoðun árið 2019 og hefur frá þeim tíma sinnt fjölbreyttum verkefnum hjá embættinu, sem forstöðumaður skrifstofu á Akureyri, sviðsstjóri tekjueftirlits og staðgengill ríkisendurskoðanda.

Áður starfaði Guðmundur m.a. í utanríkisráðuneytinu, sem ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, sem framkvæmdastjóri fyrirtækis á sviði fasteignaþróunar og sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi þar sem hann sinnti ráðgjöf við ýmsar opinberar stofnanir. Þá starfaði hann síðast fyrir Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna með aðsetur í Amman í Jórdaníu.

Guðmundur Björgvin lauk meistaraprófi í stjórnmálafræði frá London School of Economics og BA-prófi í alþjóðasamskiptum frá George Washington University.

Mynd með frétt