Landeyjahöfn

Skýrsla til Alþingis

14.06.2022

Ríkisendurskoðun hefur lokið úttekt á framkvæmda- og rekstrarkostnaði Landeyjahafnar. Fulltrúar Ríkisendurskoðunar kynntu skýrsluna á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis hinn 10. júní 2022 og hefur hún nú verið birt á vef embættisins.

Landeyjahöfn opnaði formlega í júlí 2010 og var stofnkostnaður við gerð hennar um það bil á áætlun, eða um 3,3 ma.kr. Strax á fyrsta rekstrarári Landeyjahafnar kom í ljós að dýpkunarframkvæmdir þyrftu að vera mun umfangsmeiri en ráð var fyrir gert. Áætlað var að kostnaður við dýpkun hafnarinnar yrði um 60 m.kr. á ári (á verðlagi ársins 2008) en reyndin á tímabilinu 2011-2020 var um 227-625 m.kr. á ári. Samanlagður kostnaður við viðhaldsdýpkun á þessu tímabili er um 3,7 ma.kr. Þá nam heildarkostnaður við Landeyjahöfn árin 2005-2020 rúmlega 8,2 ma.kr., að frátöldum kostnaði vegna nýrrar ferju. Framlög vegna dýpkunar hafnarinnar eru áætluð 334 m.kr. á ári á tímabilinu 2021-2024, sem er um þreföld upphafleg áætlun um kostnað við dýpkun miðað við verðlag 2022.

Í skýrslunni bendir Ríkisendurskoðun á að áætlanagerð þurfi og vera raunsæ og að framlög á samgönguáætlun og fjárlögum hverju sinni þurfi að vera í takt við raunverulegan kostnað við viðhaldsdýpkun. Þá gagnrýnir Ríkisendurskoðun að kostnaður við viðhaldsdýpkun hefur verið færður sem fjárfestingakostnaður en ekki sem rekstrarkostnaður Landeyjahafnar eins og vera ber.

Ríkisendurskoðun telur jafnframt nauðsynlegt að ráðist verði í heildstæða úttekt á Landeyjahöfn svo fá megi úr því skorið hvað raunverulegar endurbætur kosta og hvort fýsilegt sé að grípa til aðgerða sem bæta nýtingu hafnarinnar í stað þess að kosta miklu til viðhaldsdýpkunar á ári hverju.

Enn fremur telur Ríkisendurskoðun að Vegagerðin hefði þurft að ígrunda betur kaup á botndælubúnaði fyrir Landeyjahöfn. Í ljós kom að afköst búnaðarins myndu ekki réttlæta kostnað við uppsetningu og var því hætt við verkið eftir að búnaðarinn hafði verið keyptur. Um var að ræða kostnaðarsama fjárfestingu sem ekki reyndist grundvöllur fyrir, þótt eitthvað af framkvæmdum henni tengdum kunni að nýtast til frambúðar við Landeyjahöfn.

Sjá nánar skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landeyjahöfn

Mynd með frétt