Aðeins 30% sjóða og stofnana skiluðu ársreikningi á réttum tíma

Staðfestir sjóðir og stofnanir

18.08.2022

Samkvæmt 3. gr laga nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, ber þeim sem bera ábyrgð á sjóði eða stofnun að senda Ríkisendurskoðun ársreikning sjóðs eða stofnunar ásamt skýrslu um hvernig fé hefur verið ráðstafað. Árlegur skilafrestur er 30. júní.

Þegar skilafresturinn rann út höfðu eingöngu 212 sjóðir uppfyllt skilaskyldu sína, eða um 30% þeirra sjóða og stofnana sem ber að skila ársreikningum og er það um 5% lakari skil en á sama tíma í fyrra. Enn fremur er talsvert um að sjóðir og stofnanir séu í vanskilum með skil á ársreikningum fyrir eldri ár og dæmi eru um að sjóðir hafi aldrei staðið skil á ársreikningum til Ríkisendurskoðunar.

Athygli stjórnvalda hefur verið vakin á slælegum skilum og væntir Ríkisendurskoðun að þegar farið verði í heildarenduskoðun á lagaumhverfi sjóða og stofnana sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá verði gerðar ráðstafanir til að bæta skil ársreikninga.

Ríkisendurskoðun mun fyrir árslok birta útdrátt úr þeim ársreikningum sjálfseignarstofnana og sjóða fyrir rekstrarárið 2021 sem borist hafa.

Mynd með frétt