Ársreikningaskil staðfestra sjóða og stofnana versna á milli ára

Staðfestir sjóðir og stofnanir

23.01.2023

Ríkisendurskoðun hefur nú birt útdrátt úr ársreikningum sjálfseignarstofnana og sjóða sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Alls bar 693 sjóðum og stofnunum að skila ársreikningi til Ríkisendurskoðunar fyrir rekstrarárið 2021. Í desember 2022 höfðu 403 staðfestir sjóðir og stofnanir uppfyllt þessa skyldu en ársreikningar 290 sjóða og stofnana ekki borist embættinu. Höfðu því um 58% ársreikninga borist tæpum sex mánuðum eftir eindaga skila. Þá vekur athygli að 42 virkir sjóðir hafa aldrei skilað ársreikningi til embættisins þrátt fyrir árvissar ítrekanir þar um.

Í nýjasta áhættumati Ríkislögreglustjóra vegna peningaþvættis og fjármögnun hryðjuverka, sem gefið var út í mars árið 2021, er sérstaklega fjallað um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og ófullnægjandi skil þeirra á ársreikningum síðustu ár. Í áhættuflokkun Ríkislögreglustjóra er áhættan af því að slíkar stofnanir eða sjóðir verði notaðar til að þvætta ólögmætan ávinning metin veruleg. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að brugðist verði við sem allra fyrst og allra leiða leitað til að bæta skil ársreikninga þessara aðila. Á undanförnum árum hefur Ríkisendurskoðun margoft bent stjórnvöldum á að virkari lagaúrræði þurfi til að knýja fram skil á þessum ársreikningum án þess að brugðist hafi verið við þeim ábendingum.

Sjá nánar skýrslu um skil ársreikninga staðfestra sjóða og stofnana fyrir árið 2021
 

Mynd með frétt