Sjónarmið Ríkisendurskoðunar í tengslum við málefni Lindarhvols

Skýrsla til Alþingis

03.03.2023

Vegna umræðu á Alþingi og í fjölmiðlum um málefni Lindarhvols vill Ríkisendurskoðun koma á framfæri eftirfarandi sjónarmiðum og athugasemdum um greinargerð setts ríkisendurskoðanda og afstöðu embættisins til birtingar hennar. Þess skal getið að sjónarmiðum þessum hefur áður verið komið til Alþingis með formlegum hætti. Þá er jafnframt bent á að Ríkisendurskoðun skilaði Alþingi skýrslu um Lindarhvol í apríl 2020, en einungis sú skýrsla hefur að geyma endanlega úttekt og niðurstöður embættisins hvað málefnið varðar.

Sigurður Þórðarson var settur ríkisendurskoðandi hinn 19. september 2016 til þess að annast endurskoðun og hafa eftirlit með framkvæmd samnings skv. 4. mgr. 1. gr. laga nr. 24/2016, um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, sbr. bréf forseta Alþingis frá 19. september 2016. Í bréfinu kom fram að setningin skyldi gilda þar til verkefnum Lindarhvols ehf. lyki eða skilyrði vanhæfis ríkisendurskoðanda væru fallin brott. Þann 1. maí 2018 tók til starfa nýr ríkisendurskoðandi sem ekki var vanhæfur skv. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, og féll setning setts ríkisendurskoðanda úr gildi í samræmi við efni bréfs forseta Alþingis, dags. 19. apríl 2016. Ákveðið var að við skil á verkefninu myndi fylgja samantekt um stöðu þess til að tryggja að starfsfólk embættisins gæti sett sig inn í verkefnið með skjótum hætti og lokið því, enda lá fyrir að settur ríkisendurskoðandi hafði ekki lokið við úttektina. 

Greinargerð setts ríkisendurskoðanda er afurð eftirlitsstarfa hans við úttekt á málefnum Lindarhvols ehf. sem stóð yfir frá 19. september 2016 til 30. apríl 2018. Á framangreindu tímabili starfaði settur ríkisendurskoðandi samkvæmt lögum nr. 46/2016 og byggði öll upplýsinga- og gagnaöflun hans í málinu á heimildum þeirra laga, hvort sem um var að ræða upplýsingar og gögn frá stjórn Lindarhvols ehf. eða öðrum aðilum, svo sem Seðlabanka Íslands. Þá var settur ríkisendurskoðandi að sama skapi bundinn af málsmeðferðarreglum tilvitnaðra laga, þ. á m. þagnarskyldu, umsagnarrétti og reglum um aðgang að gögnum hjá Ríkisendurskoðun. 

Í 14. gr. laga nr. 46/2016 er fjallað um umsagnarrétt þeirra aðila sem sæta athugun eða eftirliti ríkisendurskoðanda en samkvæmt ákvæðinu ber ríkisendurskoðanda skylda til að senda viðkomandi drög að skýrslum og greinargerðum til umsagnar áður en athugun er lokið. Tilgangurinn með því er að tryggja sem best að ríkisendurskoðandi byggi athuganir sínar á réttum upplýsingum og gögnum. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi því sem varð að lögum kemur fram að með því að haga málsmeðferð með framangreindum hætti sé „jafnframt leitast við að tryggja að sá sem í hlut á fái tækifæri til þess að tjá sig áður en skýrslu er skilað til Alþingis um athugasemdir sem að honum beinast og um grundvöll þeirra“. 

Í 15. gr. laga nr. 46/2016 er fjallað um aðgang að gögnum hjá Ríkisendurskoðun og segir í 3. mgr. að skýrslur, greinargerðir og önnur gögn sem ríkisendurskoðandi hefur útbúið og eru hluti af máli sem hann hyggst kynna Alþingi geti fyrst orðið aðgengileg þegar þingið hefur fengið þau afhent. Undanþegin aðgangi séu drög að slíkum gögnum sem hafi verið send aðilum til kynningar eða umsagnar. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi því sem varð að lögum segir eftirfarandi: 

„Í öðru lagi er lagt til að drög að slíkum gögnum sem send hafa verið aðila til kynningar eða athugasemda, sbr. 14. gr. frumvarpsins, verði ekki aðgengileg. Slík ófullgerð gögn eru í raun vinnugögn sem glata þeirri stöðu þegar þau hafa verið send öðrum, en geta mögulega leitt til þess að röng eða beinlínis villandi umræða fari af stað áður en ríkisendurskoðandi hefur lokið athugun sinni. Getur slíkt valdið óþarfa fyrirhöfn og kostnaði. Er því lagt til að slík vinnugögn verði undanþegin aðgangi.“ Segir svo að í framkvæmd sé rétt að gera ráð fyrir því að ríkisendurskoðandi „auðkenni sérstaklega þau gögn sem eru undanþegin samkvæmt greininni þannig að þau haldi stöðu sinni við afhendingu þeirra til annarra aðila.“ 

Samkvæmt framangreindu er það grundvallaratriði að skýrsla Ríkisendurskoðunar verður ekki gerð opinber fyrr en embættið hefur lokið viðkomandi úttekt og afhent Alþingi hina endanlega skýrslu, að gættum málsmeðferðarreglum laga nr. 46/2016, þ. á m. umsagnarrétti þess aðila sem úttekt beinist að. Þegar starfsfólk Ríkisendurskoðunar tók við verkefninu kom í ljós að ekki hafði verið gætt að umsagnarrétti samkvæmt 14. gr. laganna og hafði enginn þeirra aðila sem úttektin beindist að fengið að koma að athugasemdum við þær upplýsingar sem koma fram í greinargerð setts ríkisendurskoðanda. 
Með bréfi, dags. 27. júlí 2018, afhenti settur ríkisendurskoðandi forseta Alþingis greinargerð sína og óskaði lausnar frá setningu sem settur ríkisendurskoðandi með formlegum hætti. Í tilvitnuðu bréfi kemur skýrt fram að verkefninu sé ekki lokið og að greinargerðin, ásamt öllum vinnugögnum, hafi jafnframt verið send ríkisendurskoðanda. 

Í ljósi framangreinds og þess að Alþingi hefur umrætt skjal undir höndum er það afstaða Ríkisendurskoðunar að fara eigi með skjalið sem vinnuskjal í samræmi við 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016. Ríkisendurskoðun telur að lög nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, gildi um greinargerð setts ríkisendurskoðanda, sbr. 3. mgr. 15. gr., en þau ganga framar upplýsingalögum nr. 140/2012. Ríkisendurskoðun telur brýnt að málsmeðferð Alþingis í yfirstandandi umræðum um greinargerðina gæti að óhæði og sjálfstæði ríkisendurskoðanda og bendir á að það er ekki á valdi Alþingis að veita aðgang að vinnuskjali sem verður til við lögbundin störf embættisins. Ríkisendurskoðun telur að með því að veita aðgang að vinnuskjali sem hefur að geyma upplýsingar sem settar eru fram án þess að gætt hafi verið að málsmeðferðarreglum laga nr. 46/2016 væri verið að setja varasamt fordæmi sem kynni að vega að sjálfstæði embættisins. 

Mynd með frétt