Tilkynning um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka

Skýrsla til Alþingis

28.06.2023

Í kjölfar þess að Seðlabanki Íslands birti þann 26. júní 2023 samkomulag bankans við Íslandsbanka hf. um að ljúka með sátt máli vegna brota Íslandsbanka hf. við sölumeðferð eignarhluta ríkisins í bankanum hefur að nýju hafist umfjöllun um söluferlið, þ.m.t. um fyrirliggjandi skýrslu Ríkisendurskoðunar um málið. Vegna fyrirspurna sem beint hefur verið til embættisins fylgir hér með samantekt á efni skýrslunnar, fjölmiðlum og öðrum áhugasömum til glöggvunar. Samantektin tekur mið af kynningu Ríkisendurskoðunar á skýrslunni fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á fundi nefndarinnar 14. nóvember 2022.

Fyrrgreint samkomulag Seðlabankans og Íslandsbanka hf. tekur til háttsemi og framkvæmdar Íslandsbanka sem umsjónar- og uppgjörsaðila útboðsins á 22,5% eignarhluta ríkisins í bankanum, sem átti sér stað 22. mars 2022. Sáttin varðar ekki stjórnsýslu Bankasýslu ríkisins sem framkvæmdaraðila sölunnar. Skýrsla Ríkisendurskoðunar tekur til undirbúnings og framkvæmdar sölunnar af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytis og Bankasýslu ríkisins með hliðsjón af þeim lögum, reglum, minnisblöðum, greinargerðum, kynningum, ákvörðunum, samningum og samskiptum sem vörðuðu söluna. Var þá sérstaklega horft til laga nr. 155/2012 um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum og laga nr. 88/2009 um Bankasýslu ríkisins, svo og hvernig til tókst af hálfu ráðuneytisins og Bankasýslunnar við framkvæmd söluferlisins frá upphafi til enda.

Í ljósi samkomulags Seðlabankans og Íslandsbanka hf. og fyrirspurna sem Ríkisendurskoðun hefur borist um málið síðustu daga telur embættið ástæðu til að árétta allar þær athugasemdir og ábendingar sem fram koma um söluferlið í skýrslu embættisins frá því í nóvember 2022.

Samantekt á efni skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka (pdf)

Mynd með frétt