Ársreikningaskil stjórnmálasamtaka til Ríkisendurskoðunar í ólestri

Stjórnmálastarfsemi

06.09.2024

Ríkisendurskoðun hefur nú birt á vefsíðu sinni upplýsingar um skil kirkjugarða, stjórnmálasamtaka og einstaklinga í persónukjöri (þ.m.t. kjöri til forseta Íslands) á fjárhagslegum uppgjörum til embættisins. Upplýsingarnar eru birtar á nýjum skilalista Ríkisendurskoðunar.

Samkvæmt lögum nr. 162/2006 um starfsemi stjórnmálasamtaka ber flokkum eða samtökum sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna skylda til að skila ríkisendurskoðanda reikningum sínum fyrir 1. nóvember ár hvert fyrir síðastliðið ár.

Líkt og sjá má á tölfræði yfir skil og vanskil síðustu ára hefur verið mikill misbrestur á skilum ársreikninga framangreindra aðila á undanförnum árum. Aðeins hafa um 31,5% þeirra flokka eða samtaka sem sæti áttu á Alþingi eða buðu fram í kosningum til sveitarstjórna árið 2022 staðið skil á ársreikningi ársins 2022. Er þessi niðurstaða sérstaklega ámælisverð í ljósi þess að margir þeirra aðila sem ekki hafa staðið skil á uppgjörum hafa þegið fjármuni frá sveitarfélögum en það er skilyrði fyrir úthlutun á fé úr ríkissjóði og frá sveitarstjórnum að viðkomandi flokkar eða samtök hafi staðið skil á reikningum sínum til ríkisendurskoðanda og að ríkisendurskoðandi hafi birt ársreikning þeirra.

Enn fremur er vakin athygli á að annað skilyrði fyrir úthlutun fjár úr ríkissjóði og frá sveitarstjórnum er að þeir flokkar eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitastjórna séu skráð sem stjórnmálasamtök hjá ríkisskattstjóra og séu birt á stjórnmálasamtakaskrá. Athygli vekur að aðeins 21 aðili er skráður á umrædda skrá í dag en samkvæmt upplýsingum Ríkisendurskoðunar þáðu um 150 aðilar greiðslur frá sveitarfélögum á árinu 2022.  

Mynd með frétt