Fjárskuldbindingar ráðherra

03.05.2023

Hinn 22. desember 2021 samþykkti Alþingi beiðni um skýrslu frá ríkisendurskoðanda um framlög, styrki, viljayfirlýsingar, fyrirheit og samninga allra ráðherra sem kunna að fela í sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð. Líta skyldi til tímabilsins frá og með frestun á fundum Alþingis á 151. löggjafarþingi 13. júní 2021 og til setningar 152. löggjafarþings 23. nóvember 2021. 

Fjárskuldbindingar ráðherra (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

  1. Reglur um styrkveitingar
    Tryggja verður að öll ráðuneyti uppfæri og birti opinberlega reglur um styrkveitingar sbr. reglugerð nr. 642/2018 um styrkveitingar ráðherra. Ríkisendurskoðun telur að meginreglan verði að vera sú að styrkveitingar séu auglýstar og að umsóknarferli sé í samræmi við reglurnar. Sé vikið frá slíku ferli þurfa að vera málefnalegar ástæður þar að baki og mikilvægt að það sé einungis gert í undan¬tekningartilvikum. Alltaf ætti að gera skriflega samninga um styrkveitingar samanber ákvæði framangreindrar reglugerðar.
     
  2. Gagnsæi og fyrirkomulag framkvæmda og lántöku
    Gæta þarf að gagnsæi við skuldsetningu vegna verkefna á vegum ríkisins. Forðast skal að láta félög sem ekki búa yfir mannauði og sérþekkingu á sviði byggingaframkvæmda sjá um framkvæmdir og lántöku vegna þeirra. 

Í flestum tilvikum áttu fjárskuldbindingar ráðherra á tímabilinu 13. júní til 23. nóvember 2021 sér stoð í fjárlögum eða samþykktum ríkisstjórnar eða Alþingis. Flest ráðuneyti höfðu sett sér reglur um styrkveitingar og auglýstu eftir styrkumsóknum í samræmi við þær. Það átti þó ekki við í öllum tilvikum. Ríkisendurskoðun telur að huga þurfi að því í öllum ráðuneytum að í gildi séu uppfærðar reglur um styrkveitingar. Ný skipan ráðuneyta, í samræmi við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta nr. 6/2022, kallar á tilheyrandi uppfærslu og endurskoðun reglna. 

Í þeim tilvikum þar sem ekki var auglýst eftir umsóknum um styrki voru svör gjarnan á þá vegu að um sérstök verkefni hafi verið að ræða sem aðeins einn aðili eða félag sinni. Af þeim sökum hafi ekki hallað á aðra þótt styrkir hafi verið ákveðnir án auglýsinga og umsóknarferlis. Ríkisendurskoðun telur þessi rök geta átt við í einhverjum tilvikum en hvetur til þess að meginreglan sé sú að styrkveitingar séu auglýstar. Það samræmist betur sjónarmiðum um gagnsæi og jafnræði. Jafnframt ættu samningar um styrki að vera skriflegir. 

Flest ráðuneyti gættu þess að geta um útgjöld styrkja og framlaga, sem veitt voru í samræmi við 42. gr. laga um opinber fjármál, í fylgiriti með frumvarpi til fjárlaga og í ársskýrslu. Þetta átti þó ekki alltaf við og telur Ríkisendurskoðun ástæðu til að brýna ráðuneyti til að bæta úr þessu. Ríkisendurskoðun vekur athygli á að í fylgiriti með fjárlagafrumvarpi er ekki alltaf skýrt undir hvaða lið útgjöld eru. Sundurliðun er þar lítil en þess ber að geta að ekki er gerð krafa um sundurliðun í 42. gr. Því þurfti Ríkisendurskoðun að reiða sig á upplýsingar frá ráðuneytunum sem ekki svöruðu öll spurningum þar að lútandi. 

Líkt og fram kom í inngangi skýrslunnar var tilefni úttektarinnar m.a. sú að skýrslubeiðendur töldu ráðherra hafa staðið fyrir úthlutunum til einstakra mála meðan þeir stóðu í kosningabaráttu, án þess að þær fjárveitingar hefðu komið til umræðu á Alþingi. Ríkisendurskoðun hefur ekki forsendur til að meta hvaða mál ráðherrar gætu hafa veitt fé til í tengslum við kosningabaráttu en þrjú mál voru sérstaklega nefnd í beiðninni. Um var að ræða byggingu flugskýlis fyrir Landhelgisgæsluna, byggingu nýs húsnæðis fyrir geðdeild Landspítala og byggingu nemendagarða á Flateyri. 

Nýtt flugskýli Landhelgisgæslunnar
Heimild var fyrir kaupum eða leigu á nýju flugskýli fyrir Landhelgisgæsluna í fjárlögum ársins 2021. Fjárheimild Landhelgisgæslunnar var hækkuð um 50 m.kr. vegna leigugreiðslna. Gerður var samningur í júlí 2021 milli Landhelgisgæslunnar og Öryggisfjarskipta ehf. um að félagið byggði flugskýlið og Landhelgisgæslan myndi leigja það. Áætlaður kostnaður við bygginguna var í byrjun árs 2021 talinn vera tæplega 1,2 ma. kr. Útlit er fyrir að sú áætlun standist nokkurn veginn. Öryggisfjarskipti ehf. fjármagnar framkvæmdina að mestu með lántökum á almennum markaði. Fjármögnun framkvæmdarinnar verður utan við A1-hluta ríkissjóðs og telst því ekki meðal skulda við útreikning á skuldahlutfalli ríkissjóðs. Skuld vegna framkvæmdarinnar mun koma fram í ríkisreikningi fyrir árið 2022 í A3-hluta ríkissjóðs. Fjármögnun framkvæmdarinnar á fjárlögum mun fara í gegnum framlög til Landhelgisgæslunnar vegna leigu á flugskýlinu. 

Ríkisendurskoðun telur að rétt hefði verið að gæta betur að gagnsæi varðandi þessa skuldsetningu og bendir jafnframt á að ríkinu bjóðast almennt betri lánakjör en fyrirtækjum sem taka lán á almennum markaði. Við útreikning leiguverðs var þó, samkvæmt upplýsingum fjármála- og efnahagsráðuneytis, gert ráð fyrir sama fjármagnskostnaði og ef ríkið væri lántakandinn. Því ætti Landhelgisgæslan ekki þurfa að gjalda fyrir fjármögnunarfyrirkomulagið með hærri leigugreiðslum. Þrátt fyrir það má áætla að fjármagnskostnaður ríkisins af verkefninu verði hærri en hann hefði orðið ef fjármögnun verkefnisins væri beint í gegnum ríkissjóð.

Öryggisfjarskipti ehf. er ekki með raunverulegan rekstur heldur sér Neyðarlínan ohf. um rekstur og starfsemi. Neyðarlínan er jafnframt stærsti viðskiptavinur félagsins. Aðalhlutverk Öryggisfjarskipta ehf. er rekstur fjarskiptakerfis en engir starfsmenn voru hjá félaginu árið 2021. Félagið var fengið til að annast byggingu flugskýlisins m.a. vegna þess að áhersla var lögð á að hraða byggingu skýlisins til að gæta almannahagsmuna og flýta framkvæmdum á vegum ríkisins í tengslum við fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Miklar annir voru hjá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum og taldi fjármála- og efnahagsráðuneyti því ráðlegt að fá annan framkvæmdaaðila í verkið. 

Húsnæði geðdeildar
Ýmsir sérfræðingar í geðheilbrigðismálum vöktu athygli á óviðunandi húsnæði geðdeildar Landspítala í september 2021 og bentu á að ekki væri gert ráð fyrir nýrri geðdeild við byggingu nýs húsnæðis spítalans. Heilbrigðisráðherra tók undir þessar áhyggjur í fjölmiðlum og sagði m.a. að tryggt yrði að geðdeildin fengi viðunandi húsnæði um það leyti sem nýr meðferðarkjarni yrði tilbúinn. Ekki væri of seint að bæta geðsviði Landspítala inn í verkefnið um nýjan spítala en óvíst væri hvenær ný geðdeild gæti orðið að raunveruleika. Ráðherrann fól NLSH (Nýjum Landspítala) að gera úttekt á húsnæði geðsviðs Landspítala við Hringbraut, Klepp og víðar. Í framhaldinu yrði kannaður möguleiki á nýbyggingu fyrir starfsemina. Úttektin kostaði 8,7 m.kr. og féll undir þróunarverkefni innan fjárlagaliðar 08-376 Bygging sjúkrahúss á lóð Landspítalans. Ekki fólust aðrar beinar skuldbindingar fyrir ríkissjóð í yfirlýsingum ráðherrans. 

Bygging nemendagarða á Flateyri
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fer með framkvæmd laga nr. 52/2016 um almennar íbúðir. Samkvæmt þeim er ríki og sveitarfélögum heimilt að veita stofnframlög til byggingar og kaupa á almennum íbúðum til að stuðla að framboði leiguíbúða á viðráðanlegu verði. Stofnunin auglýsir eftir umsóknum um stofnframlög ríkisins, afgreiðir þær og úthlutar framlögunum. Þáverandi félagsmálaráðherra hafði því enga beina aðkomu að ákvörðun um 134 m.kr. stofnframlag Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til byggingar nemendagarða á Flateyri. Hann kynnti þó framlagið við skólasetningu skólans haustið 2021.