Íslandspóstur ohf. framhaldsúttekt á rekstri og fjárhagsstöðu

08.10.2020

Í júní 2019 gaf Ríkisendurskoðun út skýrslu um rekstur og fjárhagsstöðu Íslandspósts ohf. Skýrslan var unnin að beiðni fjárlaganefndar Alþingis sem óskað hafði eftir því að ríkisendurskoðandi gerði úttekt á tilteknum fjárhagslegum þáttum í starfsemi félagsins. Tilefni úttektarbeiðninnar má rekja til þess að stjórn Íslandspósts ohf. leitaði um mitt ár 2018 til fjármála- og efnahagsráðuneytis, sem fer með eignarforsvar ríkisins gagnvart félaginu, um aðstoð til að mæta fyrirsjáanlegum greiðsluvanda. Samhliða útgáfu skýrslu Ríkisendurskoðunar var ákveðið að ráðast í framhaldsúttekt á Íslandspósti ohf. þegar rekstrarniðurstaða ársins 2019 lægi fyrir og fyrirsjáanlegt væri í hvaða átt reksturinn á árinu 2020 stefndi.

Í þessari skýrslu er fyrst fjallað um rekstur og fjárhagsstöðu Íslandspósts ohf. á árinu 2019 og alþjónustuskyldur fyrirtækisins eftir gildistöku nýrra póstlaga frá og með 1. janúar 2020. Fjallað er sérstaklega um aðgerðir sem eigandi og stjórn félagsins hafa gripið til í því skyni að bæta rekstur og fjárhagsstöðu þess og því næst vikið að rekstraráætlunum og væntanlegri rekstrarniðurstöðu ársins 2020. Loks er fjallað um hvaða ályktanir megi draga um rekstrarhæfi félagsins út frá núverandi stöðu og aðgerðum sem gripið hefur verið til.

Íslandspóstur ohf. - framhaldsúttekt (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

 1. Stjórn og nýtt stjórnendateymi Íslandspósts ohf. hafa unnið gott starf við að hagræða og endurskipuleggja í rekstri fyrirtækisins. Tekist hefur að hagræða í starfsmannahaldi og draga saman húsnæði án þess að það hafi komið niður á þjónustu. Stöðugildum í júnímánuði fækkaði um 24,8% á milli 2019 og 2020.
   
 2. Brýnt er að stjórnvöld ákvarði sem fyrst fyrirkomulag alþjónustu til framtíðar, einkum hvað varðar ramma þess framlags sem alþjónustuveitanda ber úr ríkissjóði vegna alþjónustubyrði. Þrátt fyrir þann mikla ávinning sem leiðir af hagræðingaraðgerðum og endurskipulagningu Íslandspósts ohf. verða framtíðarhorfur um rekstur og fjárhagsstöðu fyrirtækisins háðar óvissu þar til yfirstandandi vinna á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar um fyrirkomulag alþjónustu hefur verið leidd til lykta.
   
 3. Til að fyrirbyggja að fyrirtækið lendi mögulega í greiðsluerfiðleikum síðar á árinu telur Ríkisendurskoðun að endurmeta þurfi sérstaklega fjárþörf Íslandspósts ohf. vegna alþjónustubyrði á árinu 2020. Varúðarframlag að fjárhæð 250 m.kr. sem greitt var til Íslandspósts ohf. úr ríkissjóði í byrjun árs var ákvarðað sem hluti af bráðabirgðaráðstöfun, án þess að sameiginlegur skilningur væri milli stjórnvalda og fyrirtækisins um kostnaðarforsendur. Á sama tíma var það mat fyrirtækisins að það gæti ekki uppfyllt lögbundnar skyldur sínar nema gegn mun hærra framlagi.
   
 4. COVID-19 faraldurinn hefur haft neikvæð áhrif á rekstur Íslandspósts ohf. á þessu ári, einkum vegna fækkunar og tafa í sendingum erlendis frá og aukins kostnaðar vegna þeirra. Á sama tíma hefur innlend póstverslun tekið vaxtarkipp en sú aukning hefur ekki náð að vega upp samdráttinn í erlendum sendingum. Tekjufall fyrirtækisins vegna COVID-19 á árinu 2020 gæti numið allt að 500 m.kr. Ríkisendurskoðun telur að eigandi Íslandspósts ohf. þurfi að fylgjast náið með rekstrarhorfum félagsins með það fyrir augum að mögulega grípa til sértækra ráðstafana á árinu til að tryggja rekstur þess. 4 Íslandspóstur ohf. – framhaldsúttekt á rekstri og fjárhagsstöðu
   
 5. Einn helsti óvissuþátturinn í kjarnastarfsemi Íslandspósts ohf. er þróun bréfasendinga. Stöðugur samdráttur hefur verið í slíkum sendingum á undanförnum árum. Tekjur af póstburðargjöldum vegna hefðbundinna bréfasendinga undir 50 g að þyngd námu um 2,2 ma.kr. á árinu 2019 og eru bréf því enn stór tekjuliður hjá Íslandspósti ohf. Miðað við þróun síðustu ára er viðbúið að annað hvort þurfi að endurskoða gjaldskrá eða hagræða enn frekar til að mæta áskorunum við alþjónustuskyldur.