Staða barnaverndarmála á Íslandi

22.05.2015

Að mati Ríkisendurskoðunar hefur yfirstjórn velferðarráðuneytis í málaflokknum verið veik og ráðuneytið fram til þessa ekki sinnt stefnumótunar- og eftirlitshlutverki sínu með fullnægjandi hætti. Misbrestur hefur t.d. orðið á að ráðuneytið setji og uppfæri reglugerðir í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga og framkvæmdaáætlanir ráðherra í barnavernd til fjögurra ára í senn hafa komið seint fram. Ríkisendurskoðun telur að gildistími þeirra hafi verið of skammur til að þær hafi getað haft raunveruleg áhrif og nýst sveitarfélögum landsins við stefnumótun sína.

Þá hefur frumkvæði ráðuneytisins í stefnumótun málaflokksins verið takmarkað og það ekki haft nauðsynlegt samráð við sveitarfélög eða samtök þeirra. Í þessu efni hefur ráðuneytið alfarið reitt sig á Barnaverndarstofu sem fer með daglega stjórnsýslu málaflokksins. Fram til þessa hefur stofan leitt stefnumótun í barnavernd á Íslandi, sem og þróun og áherslubreytingar í barnaverndarstarfi, og komið fram fyrir hönd ríkisins í samskiptum við sveitarfélögin. Barnaverndarstofa hefur þannig í raun verið í forsvari fyrir málaflokkinn.

Staða barnaverndarmála á Íslandi (pdf)

Mynd með færslu