Frumgreinakennsla íslenskra skóla

31.05.2012

Á síðustu árum hefur Ríkisendurskoðun vikið að frumgreinanámi íslenskra skóla í tveimur opinberum skýrslum: Keilir ehf. Ríkisframlög og árangur (2010) og Lánasjóður íslenskra námsmanna. Lánshæfi náms og þróun útlána (2011). Í fyrrnefndu skýrslunni var m.a. þeirri ábendingu beint til mennta- og menningarmálaráðuneytis að gera þyrfti sérstaka úttekt á frumgreinakennslu í landinu og móta um hana samræmdar reglur til að tryggja gæði námsins og hagsmuni nemenda. Óeðlilegt væri að einstakir háskólar og samstarfsaðilar þeirra stjórnuðu ferðinni í þeim efnum.

Í skýrslunni um Lánasjóð íslenskra námsmanna benti Ríkisendurskoðun á hinn bóginn á að lánveitingar sjóðsins vegna frumgreinanáms færu í bága við þá meginhugsun laga um lánasjóðinn að nám við skóla sem veita undirbúningsmenntun til stúdentsprófs eða sambærilegs prófs sé ekki lánshæft. Jafnframt brytu slíkar lánveitingar gegn jafnræði þeirra sem legðu stund á nám til stúdentsprófs. Í framhaldi af þessu ályktaði Ríkisendurskoðun svo að annaðhvort bæri að hætta alveg lánveitingum vegna frumgreinanáms eða breyta lögum um lánasjóðinn í samræmi við framkvæmd og gefa öllum nemendum framhaldsskóla kost á námslánum.

Frumgreinakennsla íslenskra skóla (pdf)

Mynd með færslu