Vinnumarkaðsaðgerðir á tímum kórónuveiru

17.12.2020

Ríkisendurskoðun ákvað að eigin frumkvæði að hefja úttekt á efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Ákvörðun Ríkisendurskoðunar að hefja athugun á þessum úrræðum og framkvæmd þeirra var tilkynnt Vinnumálastofnun, Skattinum, félagsmálaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti með bréfum þann 11. ágúst 2020. Þá var Ferðamálstofu tilkynnt um úttektina með bréfi þann 15. september sama ár. Í úttekt þessari voru kannaðar forsendur úrræðanna, framkvæmd þeirra og hvernig nýting úrræðanna var.

Ríkisendurskoðun aflaði gagna og upplýsinga frá fyrrgreindum aðilum sem jafnframt fengu drög að skýrslunni til umsagnar. Ríkisendurskoðun tók tillit til athugasemda og ábendinga sem gerðar voru þegar tilefni var til.

Vinnumarkaðsaðgerðir á tímum kórónuveiru (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

Við upphaf kórónuveirufaraldursins hér á landi í mars 2020 gripu stjórnvöld til efnahagsaðgerða til að styðja við grunnstoðir samfélagsins. Þá var augljóst að áhrif veirunnar á vinnumarkaðinn og íslenskt atvinnulíf gætu orðið umfangsmikil. Þann 21. mars kynnti ríkisstjórnin á blaðamannafundi víðtækar efnahagsaðgerðir eða fyrsta aðgerðapakkann. Síðan þá hafa stjórnvöld kynnt aðgerðapakka tvö og þrjú og nú síðast í september 2020 voru samþykktar umfangsmiklar ríkisábyrgðir til Icelandair Group hf. Ljóst er að útgjöld ríkissjóðs hafa aukist umtalsvert og ekki er útséð um hver endanleg niðurstaða verður enda er faraldrinum ekki lokið þegar þetta er ritað.

Tæpir 70 ma.kr. hafa farið til málaflokksins Vinnumarkaður og atvinnuleysi samkvæmt fjáraukalögum sem samþykkt voru á tímabilinu mars–september 2020. Um er að ræða aðgerðir sem beinast fyrst og fremst að launamönnum og fyrirtækjum. Annars vegar er um að ræða beina styrki eins og greiðslu launa á uppsagnarfresti, greiðslu launa í sóttkví og lokunarstyrki og hins vegar lán sbr. Ferðaábyrgðasjóð.

Nýting úrræða
Ríkisendurskoðun skoðaði hlutfall nýtingar þeirra úrræða sem fjallað er um í skýrslunni miðað við þær áætlanir sem upphaflega voru gerðar. Greiddur kostnaður var í öllum tilfellum töluvert undir þeim áætlunum sem gerðar voru þegar frumvörpin voru samþykkt. Í nýju frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt var fram á Alþingi í lok nóvember 2020 má finna endurmat á kostnaði við úrræðin. Ekki er tímabært að leggja mat á hvort úrræðin hafi nýst eins og markmið og tilgangur laganna kváðu á um og geymir þessa skýrsla því yfirlit yfir framkvæmd og umfang úrræðanna. Í ljósi þróunar faraldursins er útlit fyrir að úrræðin verði framlengd og útgreiðslur vegna þeirra verði hærri en hér kemur fram.

Innleiðing
Almennt má segja að innleiðing á úrræðunum hjá Vinnumálastofnun, Skattinum og Ferðamálastofu hafi gengið vel þegar horft er til þess skamma tíma sem var til undirbúnings og framkvæmda. Stofnanirnar brugðust hratt við og settu upp kerfi og verkferla fyrir umsóknir, gagnaöflun og afgreiðslu umsókna.

Upplýsingagjöf
Upplýsingar um úrræðin, skilyrði sem þarf að uppfylla, sem og umsóknarferlið sjálft eru í flestum tilfellum einungis á íslensku. Undantekning er heimasíða Vinnumálastofnunar en þar má finna upplýsingar á bæði ensku og pólsku auk íslensku um hlutastarfaleiðina og laun í sóttkví. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að umsjónaraðilar annarra úrræða sem fjallað er um í þessari skýrslu efli upplýsingagjöf sína til viðskiptavina sem ekki eru íslenskumælandi í ljósi breyttrar samsetningar þjóðarinnar.

Eftirlit
Það er álit Ríkisendurskoðunar að mikilvægt er að fylgst sé með hvort greiðslur úr ríkissjóði í formi styrkja eða lána séu í samræmi við markmið og skilyrði þeirra laga sem gilda. Við skoðun á þeim úrræðum sem hér voru könnuð er slíkt eftirlit mislangt komið. Við úthlutun lokunarstyrkja, launa á uppsagnarfresti og launa í sóttkví hefur verið komið á samtímaeftirliti í rafrænu umsóknakerfi. Þá hefur Ferðamálastofa hafið eftirlit með ráðstöfun lána. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að umsjónaraðilar úrræðanna skipuleggi vel með hvaða hætti þeir munu haga sínu eftirliti þegar nauðsynleg gögn liggja fyrir og að eftirlitið fari fram hið fyrsta.

Eftirlit Vinnumálastofnunar með hlutastarfaleiðinni hefur enn sem komið er helst beinst að því hvort fyrirtæki uppfylli skilyrði um ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Einnig hefur þeim aðilum sem bersýnilega uppfylla ekki þau skilyrði sem sett eru um starfsemi þeirra verið hafnað. Að öðru leyti hefur Vinnumálastofnun ekki hrint af stað ásættanlegu eftirliti en áformar að hefja eftirlit þar sem samkeyrð verða við gögn Skattsins umsóknir hjá Vinnumálastofnun. Ríkisendurskoðun áréttar því tillögu frá því í maí 2020 um að tryggja þurfi virkt eftirlit með úrræðinu þegar í stað. Er það sérstaklega brýnt í ljósi þess að um háar fjárhæðir er að ræða og fram hefur komið opinberlega að einstök fyrirtæki hafi endurgreitt bætur til Vinnumálastofnunar með þeim rökum að réttur til bóta hafi ekki verið fyrir hendi.

Lykiltölur

Áætlun og nýting úrræða stjórnvalda í ma.kr.
Fjöldi fyrirtækja sem hafa fengið greidd laun starfsmanna í sóttkví