Framkvæmd fjárlaga, janúar-september 2021

20.02.2022

Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir framkvæmd fjárlaga á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 og tekna- og gjaldahorfum til ársloka. Fjallað er um afkomu A-hluta ríkisins (ríkissjóðs) og sjóðstreymi, frávik í tekjum og gjöldum frá áætlunum og breytingar miðað við fyrri ár.

Framkvæmd fjárlaga, janúar-september 2021 (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

Afkoma A-hluta ríkisins
Afkoma A-hluta ríkisins á tímabilinu janúar til september 2021 var neikvæð um 137,5 ma.kr. Í hlutfalli af heildartekjum var hallinn 21,2%.
Til samanburðar var afkoma ríkissjóðs neikvæð um 167,4 ma.kr. á sama tíma í fyrra sem svarar til 28,8% af heildartekjum. Afkoman batnaði því á milli ára um 29,9 ma.kr.

Hallarekstur þessa og síðasta árs skýrist af áhrifum Covid-19 faraldursins á ríkis-fjármálin. Halli þessa árs var hins vegar fyrirséður við gerð fjárlaga ársins ólíkt því sem átti við í fyrra.

Afkoma tímabilsins er nokkru betri en áætlun, sem skráð er í fjárhagskerfi ríkisins, gerir ráð fyrir. Hallinn var sem fyrr segir 137,5 ma.kr. en áætlun gerir ráð fyrir 188,8 ma.kr. halla og útkoman því 51,3 m.kr. betri.

Aðeins hafa verið lögð fram og afgreidd ein fjáraukalög það sem af er árinu.


Tekjur A-hluta ríkisins
Heildartekjur A-hluta ríkisins á tímabilinu janúar til september 2021 námu 649,8 ma.kr. Þær voru 67,6 ma.kr. eða 11,6% hærri en á sama tíma 2020. Þar af hækkuðu skatttekjur um 61,9 ma.kr. (14,1%) og tekjur af tryggingagjöldum um 6,9 ma.kr. (10,7%) en þessir tekjustofnar nema um 88% af heildartekjum A-hlutans. Aðrar rekstrartekjur og hlutdeild í afkomu dóttur- og hlutdeildarfélaga hækkuðu einnig en fjármunatekjur drógust saman.

Heildartekjur tímabilsins urðu 55,1 ma.kr. hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Einkum skiluðu skattar á tekjur og hagnað og skattar á vöru og þjónustu meiri tekjum en áætlað hafði verið en einnig voru ýmsar rekstrartekjur, s.s. sértekjur stofnana, hærri á tímabilinu en nam áætlun.

Gjöld A-hluta ríkisins
Heildargjöld ríkissjóðs á tímabilinu janúar til september 2021 voru 793,6 ma.kr. og hækkuðu um 44,0 ma.kr. eða 5,9% miðað við sama tímabil í fyrra. Þar af hækkuðu laun og launatengd gjöld um 16,2 ma.kr. (8,6%), framlög og tilfærslur hækkuðu um 23,0 ma.kr. (6,9%) og annar rekstrarkostnaður hækkaði um 31,4 ma.kr. (24,4%). Á hinn bóginn lækkaði fjármagnskostnaður um 27,7 ma.kr. (33,6%) á milli tímabila. Til samanburðar hækkaði vísitala neysluverðs um 4,3% og almenn launavísitala um 8,6% á sama tíma.

Gjöld tímabilsins voru 11,5 ma.kr. undir áætlun, einkum þar sem framlög og tilfærslur sem og annar rekstrarkostnaður voru lægri en áætlað var. Hins vegar voru laun og launatengd gjöld, fjármagnskostnaður og afskriftir hærri en nam áætlun tímabilsins.

Af 35 málefnasviðum sem ríkisrekstrinum er skipt í voru 22 með jákvæða fjárheimilda-stöðu í lok tímabilsins samtals að fjárhæð 18,2 ma.kr. en 13 voru með neikvæða fjárheimildastöðu að fjárhæð 18,9 ma.kr.

Ónotuð fjárheimild í lok júlí var hæst á málefnasviðunum 30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi (3,0 ma.kr.), 25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta (2,4 ma.kr.), 29 Fjölskyldumál (2,2 ma.kr.) og 33 Fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar (2,2 ma.kr.).

Málefnasviðin sem mest fóru fram úr voru 23 Sjúkrahúsþjónusta (6,3 ma.kr.), 24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa (5,4 ma.kr.), 26 Lyf og lækningavörur (2,3 ma.kr.) og 09 Almanna- og réttaröryggi (2,0 ma.kr.).

Sjóðstreymi A-hluta ríkisins
Hallareksturinn leiðir til þess að handbært fé frá rekstri er neikvætt og hefur þurft að mæta lánsfjárþörfinni með auknum lántökum á árinu miðað við árið á undan. Handbært fé í árlok jókst engu að síður um 38,8 ma.kr.

Lykiltölur

Tekjur A-hluta janúar til september 2018 til 2021
Gjöld A-hluta janúar til september 2018 til 2021