Landspítali - endurskoðunarskýrsla 2020

03.03.2022

Ríkisendurskoðun hefur farið yfir ákveðna liði í ársreikningi Landspítala fyrir árið 2020. Spítalinn er A-hluta stofnun ríkissjóðs og er ársreikningur stofnunarinnar og annarra A-hluta stofnana ekki áritaðir sérstaklega og því ekki gefið álit á ársreikninginn sjálfan. Endurskoðun fer fram sem hluti af endurskoðun ríkisreiknings og gefur Ríkisendurskoðandi út álit á ríkisreikning í heild sinni.

Landspítali - endurskoðunarskýrsla 2020 (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

 1. Innri endurskoðun
  Ríkisendurskoðandi telur að eftirlitsumhverfið sé almennt gott hjá Landspítala. Þrátt fyrir það er nauðsynlegt að til spítalans verði ráðinn innri endurskoðandi. Hlutverk innri endurskoðanda er meðal annars að kanna hvort unnið sé eftir þeim fjölmörgu skráðu og óskráðu verkferlum sem í gildi eru á spítalanum. Ríkisendurskoðandi leggur því aftur til að stjórnendur yfirfari þessa þörf. Einnig kemur til greina að útvista þessu verkefni til endurskoðunarstofa. Sjá nánar í kafla 4.2.
   
 2. Fasteignir
  Með lögum um opinber fjármál nr. 123/2015 sem tóku í gildi vegna ársins 2017 var sú breyting frá fyrri reikningsskilareglum að ríkisaðilum ber að færa til eignar alla varanlega rekstrarfjármuni sem áður voru gjaldfærðir. Þar á meðal eru fasteignir. Fasteignir eru þó ekki færðar hjá einstaka stofnunum, samkvæmt ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytis. Á grundvelli þeirrar ákvörðunar eru fasteignir Landspítala ekki færðar í ársreikningi hans en gerð er grein fyrir fasteignamati þeirra í skýringu með ársreikningnum og er fasteignamatið 38.066 milljónir króna í árslok 2020. Það er álit Ríkisendurskoðanda að það sé ekki í samræmi við lög og settar reikningsskilareglur að fasteignir sem tilheyra spítalanum séu ekki eignfærðar í efnahagsreikning hans.

  Einnig er það álit Ríkisendurskoðanda að það sé ekki í samræmi við lög og settar reikningsskilareglur að endurbætur á fasteignum séu eignfærðar sem fastafjármunir í efnahagsreikningi þar sem, samkvæmt fjár- og fjáraukalögum, er gert ráð fyrir að Landspítali beri þennan kostnað. Uppsafnaður kostnaður áranna 2017-2020 nam um 4.123 milljónum króna í árslok 2020 og er skuldfærður á móti fjárfestingarframlagi vegna eignaverka 3.947 milljónir króna. Sjá nánar í kafla 5.7.
   
 3. Rannsóknaþjónusta
  Þjónustutekjur Landspítala námu 3.430 milljónum króna á árinu 2020, þar af námu tekjur rannsóknarþjónustu 1.630 milljónir króna. Veikleiki er í innra eftirliti með tekjum vegna rannsókna. Að loknum rannsóknum fara niðurstöður inn í Vigrakerfi en þar er haldið utan um gjaldskrár og reiknireglur. Vigrakerfið skilar vikulega reikningsupplýsingum inn í Orra, fjárhagskerfi ríkisins, þar sem endanlegir reikningar eru gerðir, m.a. á lækna sem hlotið hafa rannsóknarstyrki. Sá veikleiki er við þessa tekjumyndun, fyrir Landspítala, að ekki hefur enn verið komið á fót afstemmingarkerfi sem stemmir af þær rannsóknir sem lokið er við og þær rannsóknir sem fara inn í Vigrakerfið. Sjá nánar í kafla 5.4.
   
 4. Verkferlar
  Æskilegt er að fara reglulega yfir alla verkferla vegna bókhalds og tryggja að þeir séu samþykktir með formlegum hætti af framkvæmdastjórn þannig að starfsmenn séu meðvitaðir um hvaða verkferlar eru í gildi. Verkferlar þurfa að stuðla að virku innra eftirliti vegna allra bókhaldsferla. Sjá kafla 4.1 vegna innra eftirlits og kafla 5.4 vegna rekstrartekna.
   
 5. Birgðir
  Gerð er athugasemd við að halda þurfi betur utan um Eimskipalagerinn þar sem mismunur er á milli birgðakerfis spítalans og birgðakerfis Eimskips.
   
 6. Handbært fé og vörslufé
  Það er álit Ríkisendurskoðanda að bankareikninga sem varða þjónustu og fjárhagslega umsjón með þeim sjálfseignarstofnunum, sérsjóðum og verkefnum, sem tengjast starfsemi spítalans beri að færa meðal eigna og skulda í efnahagsreikningi sem vörslufé og stemma þá af, við reglubundin uppgjör hjá spítalanum. Samtals nema umræddir bankareikningar 862,3 milljónum króna.
   
 7. Viðskiptaskuldir
  Erlendar viðskiptaskuldir eru færðar í ársreikningi miðað við gengi viðskiptadags en eru ekki færðar upp miðað við gengi viðkomandi gjaldmiðils um áramót. Í árslok þarf að reikna upp erlendar viðskiptaskuldir miðað við árslokagengi viðkomandi mynta.
   
 8. Innkaupadeild
  Kannanir hafa leitt í ljós að ekki var alltaf unnið í innkaupakerfi spítalans og eftir þeim verkferlum sem þar eiga við, heldur voru lækningavörur, tæki, vörur og þjónusta pöntuð fram hjá því. Breyting varð á vinnslu innkaupadeildar á árinu 2021 og því lítið sem hefur farið framhjá kerfinu eftir það. Sjá nánar í kafla 5.9.
   
 9. Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar fyrir opinbera aðila (IPSAS)
  Ársreikningur Landspítala er gerður á grundvelli alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila, IPSAS, en samkvæmt skýringu 2 er innleiðingu á stöðlunum ekki að fullu lokið. Í ársreikningi er talað um frávik frá stöðlunum en ekki er gerð frekari grein fyrir því í hverju frávikin liggja, umfangi þeirra og áhrifum á ársreikninginn. Æskilegt er að upplýsa notendur ársreikningsins um slík frávik. Sjá nánar í kafla 5.14.

Lykiltölur

Tekjur (m.kr)
Gjöld (m.kr.)