Innheimtustofnun sveitarfélaga - stjórnsýsluúttekt

21.10.2022

Í september 2021 gerðu Ríkisendurskoðun og samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið (nú innviðaráðuneyti) með sér samning um úttekt á Innheimtustofnun sveitarfélaga. Úttektin var ákveðin m.a. vegna vinnu verkefnisstjórnar sem skipuð var fulltrúum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við stefnumörkun þess efnis að flytja verkefni stofnunarinnar til ríkisins. 

Verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga hafa ekki fallið undir eftirlit Ríkisendurskoðunar og því er ekki um hefðbundna stjórnsýsluúttekt að ræða. Þá er í skýrslunni ekki fjallað um meinta háttsemi fyrrum stjórnenda stofnunarinnar sem til rannsóknar er hjá héraðssaksóknara.

 

Innheimtustofnun sveitarfélaga - stjórnsýsluúttekt (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

 1. Ábyrgð á innheimtu meðlaga verði endurskilgreind
  Ríkisendurskoðun leggur til að innheimtumönnum ríkissjóðs, einum eða eftir atvikum fleiri, verði falin ábyrgð á innheimtu meðlaga. Mikilvægt er að ákvörðun um hvaða ríkisaðili taki við verkefnunum liggi fyrir sem fyrst til að unnt sé að hefja yfirfærslu án tafar. 
   
 2. Meðhöndlun óinnheimtra krafna 
  Ríkisendurskoðun leggur til að innheimtumönnum ríkissjóðs sem viðtökuaðila verkefna Innheimtustofnunar verði falið að meta þau verðmæti sem felast í kröfusafni stofnunarinnar. Því telur Ríkisendurskoðun rétt að kröfusafnið í heild sinni flytjist til ríkisins með samkomulagi við eigendur Innheimtustofnunar þess efnis að viðtakandi meti innheimtanleika og þannig verðmæti þeirra krafna sem liggja í kröfusafninu. Í samkomulaginu verði enn fremur kveðið á um að endanlegt uppgjör vegna kröfusafnsins fari fram að tilteknum tíma liðnum, t.d. fimm árum eftir flutning verkefnisins. 
   
 3. Greining verði gerð á tæknilegri högun 
  Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að við ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag verkefna Innheimtustofnunar verði gerð sérstök greining á gagnagrunni núverandi innheimtukerfis sem og þeim kerfum sem til staðar eru hjá viðtökuaðila. Ríkisendurskoðun telur rétt að kerfi innheimtumanna ríkisins, eftir atvikum í samstarfi við Tryggingastofnun, verði skoðuð sérstaklega í þessu tilliti. 
   
 4. Endurskoðun á mælikvörðum og mati á árangri 
  Viðtökuaðili verkefnanna þarf í samráði við ráðuneyti að marka stefnu um framkvæmd innheimtu meðlaga með skilgreindum mælikvörðum um árangur. Þá þarf að skjalfesta verklagsreglur og koma á gæðaeftirliti með þeim. 

  Stjórnvöld þurfa jafnframt að endurskoða lagaumhverfi meðlagsinnheimtu og viðhalda því með reglubundnum hætti. 

Meginverkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga er að innheimta meðlög hjá meðlagsskyldum foreldrum sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt forráðamönnum barna þeirra. Innheimtustofnun sveitarfélaga skilar Tryggingastofnun ríkisins því fé sem innheimtist upp í meðlagsgreiðslur og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir það sem á upp á vantar. Innheimtu stofnunarinnar má flokka í reglubundna innheimtu, innheimtu samkvæmt samningi um ívilnun og vanskilainnheimtu. Þá er einnig um að ræða sérstök verkefni um innheimtu erlendis og vegna erlendra ríkisborgara óháð búsetu þeirra. 

Mikilvægir innviðir fyrir framkvæmd og þróun í innheimtu eru; skýr lagagrunnur, vel skilgreind ferli og kerfi, þ.m.t. stjórnunarkerfi og upplýsingakerfi ásamt virkri yfirstjórn og eftirliti. Er það afstaða Ríkisendurskoðunar að þessum þáttum hafi verið ábótavant í starfi Innheimtustofnunar. Viðeigandi mannauður er svo nauðsynlegur til þess að starfsemin gangi vel fyrir sig.

Lög nr. 54/1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga eru í meginatriðum óbreytt frá því þau voru sett fyrir um 50 árum og lýsa þau fyrst og fremst innheimtuferlinu. Skilgreint eignarhald og ábyrgð sveitarfélaganna á stofnuninni og aðkoma þeirra að stjórn samkvæmt lögum er ekki í samræmi við núverandi framkvæmd. Þá taka lögin ekki með afgerandi hætti á atriðum er varða yfirumsjón og eftirlit með stofnuninni. Í þessu samhengi er aðkoma stjórnar að ákvörðunum um ívilnanir nokkuð mótuð í reglugerð en annað hlutverk hennar ekki tilgreint sérstaklega.

Helsta upplýsingakerfi stofnunarinnar er innheimtukerfið sem er sérsmíðað fyrir verkefni stofnunarinnar. Það gegnir enn sínu hlutverki en komið er að tímamótum. Meginatriði sem bæta þarf úr varða uppfærslu á gagnagrunni, fækkun handvirkra aðgerða og aukna skilvirkni í bakvinnslu. Einnig þarf að bæta atburðaskrá og rekjanleika ásamt því að ljúka samhæfingu og prófun tiltekinna kerfishluta.

Framkvæmd innheimtu
Verkferli við innheimtuna hafa mótast í gegnum árin og byggjast fyrst og fremst á löngum starfsaldri og reynslu starfsmanna við beitingu þeirra úrræða sem lögin tilgreina. Innheimta erlendis er háð ákveðnum skorðum einkum ef búseta greiðenda er utan Norðurlandanna. Sama á við hvað varðar innheimtu á hendur erlendum ríkisborgurum. Fyrir utan þau almennu sérkenni sem fylgja innheimtu á meðlagskröfum og felast m.a. í fyrirtækjainnheimtu og erlendri innheimtu, liggur ein megináskorun starfseminnar í því hvernig eigi að nálgast kröfur í vanskilum. Þótt svo að innheimtuferli séu í mótuðum farvegi eru engir skráðir verkferlar til staðar. Ástæða er til að líta til kerfisbundinnar nálgunar með bættum möguleikum til að þróa og stýra ferlum. Forsenda þess er að skjalfesta ferli og koma á skipulagi til að staðfesta að þeim sé fylgt, t.d. með innra eftirliti og gæðastjórnunarkerfi. 

Upplýsingatækni hefur verið nýtt að einhverju leyti. s.s. með sjálfsafgreiðslumöguleikum. Mikilvægt er að þróa áfram upplýsingakerfi sem styðja við innheimtu, svo að bæta megi greiningu gagna um kröfur og greiðslur og auka möguleika á stýringu innheimtuferla í því skyni að bæta innheimtuárangur. Valkostir við þróun innheimtukerfisins eru í meginatriðum áframhaldandi þróun eða aðlögun að þeim kerfum sem gætu tekið við hlutverki þess. Við slíka aðlögun þarf að greina getu og aðlögunarmöguleika viðkomandi kerfa með hliðsjón af gögnum og ferlum sem felast í innheimtukerfinu í dag og fyrirliggjandi stöðu þess. Hluti af þessari aðlögun felst í að tryggja heilindi gagna og gæta að lögum um persónuvernd.

Rekstur og kröfusafn
Samkvæmt ársreikningi Innheimtustofnunar árið 2021 voru rekstrargjöld rúmar 378,6 m.kr. þar af voru laun og annar starfsmannakostnaður um 285,5 m.kr eða 75%. Tekjur stofnunarinnar, þ.e. innheimtir dráttarvextir auk innheimtuþóknana námu samtals 272,7 m.kr. Þar af voru innheimtir dráttarvextir 214,3 m.kr. eða um 80%. Tap af rekstrinum nam 100,5 m.kr. og var einnig um 117,1 m.kr. tap að ræða árið 2020. Þar sem tekjur Innheimtustofnunar ráðast að mestu af innheimtum dráttarvöxtum endurspeglar afkoma stofnunarinnar ekki eiginlegan árangur nema að mjög takmörkuðu leyti. Þá stendur Jöfnunarsjóður sveitarfélaga undir rekstrarkostnaði að öðru leyti, óháð árangri, án þess að sérstakt eftirlit eða aðhald sé til staðar af hálfu sjóðsins. 

Eldra kröfusafn Innheimtustofnunar sem bókfært er sem eignir í efnahagsreikningi hefur ekki verið greint með ítarlegum hætti og er virði þess því mikilli óvissu háð. Mælikvarði sá sem stofnunin hefur stuðst við um innheimtuhlutfall og sett hefur verið fram í ársskýrslum stofnunarinnar segir lítið til um raunverulega þróun innheimtunnar frá ári til árs. Skýringin er sú að horft hefur verið til allrar innheimtu ársins óháð aldri þeirra krafna sem um er að ræða sem hlutfall af greiddu meðlagi ársins. Þetta hlutfall er óstöðugt og lýsir ekki árangri hvers árs með réttum hætti. Þá er lítil sem engin sundurliðun á innheimtu eldri krafna. Orsök þess er m.a. sú að útistandandi skuldir eru skráðar sem heildarskuldir einstaklinga en ekki brotnar niður á tilteknar aldursgreindar meðlagskröfur. Í þessu samhengi þarf að setja skýrari mælikvarða og markmið um innheimtuna sem byggjast á úrbótum í greiningu gagna og betri tengingu tekjuflæðis við innheimtuárangur. 

Tilfærsla verkefna
Framkvæmd innheimtu meðlaga, eins og hún hefur verið framkvæmd hjá Innheimtustofnun undanfarna áratugi, er áfátt varðandi skipulag, ferli, fjármögnun o.fl. eins og rakið er í þessari skýrslu. Í þessu samhengi er hins vegar jákvætt að sérhæft og almennt starfsfólk Innheimtustofnunar sem hefur unnið eftir óskráðu verklagi býr yfir þekkingu og reynslu sem nýtist áfram. 

Ábyrgð á innheimtu meðlaga hefur verið á báðum stjórnsýslustigum, þ.e. ríkis og sveitarfélaga samkvæmt lögum. Hins vegar má segja að í reynd hafi sveitarfélög ekkert komið að málefninu mörg undanfarin ár nema með stjórnarsetu. Ábyrgð á framkvæmd innheimtunnar hefur verið á hendi Innheimtustofnunar og ríkissjóður borið kostnaðinn. Mikilvægt er að þessu misræmi verði eytt og að ábyrgð á framkvæmd innheimtu komist á hendur eins aðila með formlegum hætti. 

Í skýrslunni er lagt til að verkefni Innheimtustofnunar flytjist til innheimtumanna ríkissjóðs. Samstarf við Tryggingastofnun er nauðsynlegt en útfærsla á því samstarfi er háð nánari greiningu og stefnu stjórnvalda. 

Hin augljósa hagræðing sem í þessu felst er að innheimta meðlaga yrði ekki í því tómarúmi sem verið hefur varðandi starfsumgjörð, ábyrgð, eftirlit og fleiri stjórnunarþætti. Endurskipulagning á innheimtustarfseminni og núverandi starfsumgjörð er líkleg ein og sér til að bæta innheimtu, stuðla að jákvæðri þróun starfseminnar og auka þjónustu við meðlagsgreiðendur. Jafnframt er um sértæka hagræðingarmöguleika að ræða, t.d. varðandi launa- og upplýsingatæknikostnað og húsnæði.

Ákvörðun um tilfærslu verkefna Innheimtustofnunar til ríkisins þyrfti að fylgja eftir með verkefnaáætlun til 8–12 mánaða er næði til nokkurra lykilatriða. Einstök atriði í slíkri áætlun verða ekki útfærð nema ákvörðun um tilfærslu innheimtunnar til ríkisaðila liggi fyrir. 

Lykiltölur

Tekjur 2021 (m.kr.)
Gjöld 2021 (m.kr.)